Skip to main content
VMF

Að gefnu tilefni: Play virðir ekki grundvallarleikreglur vinnumarkaðarins

By október 27, 2023No Comments
B440e599 Df66 43Fd 8Bee 148066F73be7 PLAY Airline 144
Vakin er athygli á svohljóðandi yfirlýsingu stjórnar Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) frá 25. október sl:

Stjórn Flugfreyjufélags Íslands mótmælir þeim rangfærslum sem viðhafðar voru í Silfrinu á mánudagskvöld 23. október síðastliðinn og sér sig knúna til að leiðrétta.

Birgir Jónsson forstjóri Play gaf í skyn að FFÍ væri gult stéttarfélag undir hatti Icelandair og staðhæfði að Icelandair væri eini viðsemjandi stéttarfélagsins.

Flugfreyjufélag Íslands er sjötíu ára gamalt stéttarfélag og eina stéttarfélag flugfreyja og -þjóna á Íslandi. Félagið hefur staðið að samningagerð fyrir hönd félagsmanna sinna sem hafa unnið hjá hinum ýmsu flugfélögum og flugrekendum á Íslandi, má þar nefna: Flugleiðir, Loftleiðir, Icelandair, Flugfélag Íslands, Arnarflug, Íslandsflug, Iceland Express, Wow air og Niceair.

Play er eitt fárra flugfélaga sem hefur ekki liðkað fyrir veru sinna flugfreyja og -þjóna innan banda FFÍ heldur farið þá leið að semja sjálft við sína starfsmenn undir formerkjum Íslenska flugstéttafélagsins (ÍFF) og situr þar með beggja vegna borðsins.

Play er þar með ekki að fylgja leikreglum sem almennt eru viðhafðar á íslenskum vinnumarkaði. Þetta veit Birgir Jónsson mætavel og því furðar stjórn FFÍ sig á þeim fullyrðingum sem komu frá honum í Silfrinu.

Stjórn FFÍ fagnar því að Birgir hafi í þættinum lýst yfir rétti kvennastétta til mannsæmandi launa og hvetur því Birgi eindregið til að endurskoða sína afstöðu og liðka fyrir innkomu sinna flugfreyja og -þjóna í FFÍ og hefja undirbúning að kjarasamningsviðræðum þar sem hag þeirra er best borgið.

Að gefnu tilefni telur ASÍ jafnframt rétt að rifja upp eftirfarandi ályktun miðstjórnar og tengda umfjöllun um málefni Play og ítrekar hér með þau sjónarmið sem áður hafa komið fram í nefndum ályktunum enda sé gagnrýnin því miður ennþá viðeigandi.

https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/alyktun-midstjornar-asi-um-undirbod-flugfelagsins-play/

https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/yfirlysing-fra-asi-vegna-samanburdar-a-launakjorum-hja-play-og-icelandair/

 

Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ:

„Hátterni flugfélagsins Play í tengslum við hina meintu „kjarasamningagerð“ og sniðganga þeirra á eina frjálsa stéttarfélagi flugfreyja á Íslandi er svartur blettur á sögu kjarasamningagerðar á Íslandi. Á meðan Play sér ekki að sér og hafnar því að fylgja leikreglum íslensks vinnumarkaðar mun íslensk verkalýðshreyfing fordæma starfsemi Play sem að í skásta falli er byggð á siðlausum grunni. Það að forstjóri Play hafi ráðist að heilindum FFÍ opinberlega sem ASÍ er stolt af því kalla sitt aðildarfélag, er sérlega siðlaust í ljósi þess hvað gengið hefur á undanfarin ár. Ég skora á Play að ganga til kjarasamningsviðræðna við FFÍ og tryggja það að íslenskir neytendur geti búið við samkeppnismarkað í millilandaflugi án þess að þurfa gefa verulegan afslátt af heilindum sínum og almennum hugmyndum um viðskiptasiðferði.“