Skip to main content

Það er skýr afstaða stjórnar VIRK að ef ríkið tekur ekki þátt í fjármögnun sjóðsins eins og lög kveða á um og samningar gera ráð fyrir geti VIRK ekki tekið við einstaklingum í þjónustu á árinu 2015 sem ekki er greitt af í sjóðinn. Það felur í sér að ekki verður lengur fyrir hendi eitt heildarkerfi atvinnutengdrar starfsendurhæfingar með jöfnum aðgangi fyrir alla einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda.

„Ef ríkið tekur ekki þátt í fjármögnun á VIRK eins og lög kveða á um og samningar gera ráð fyrir þá er ljóst að VIRK getur ekki tekið við einstaklingum í þjónustu á árinu 2015 sem ekki er greitt af í sjóðinn. Það felur í sér að ekki verður lengur fyrir hendi eitt heildarkerfi atvinnutengdrar starfsendurhæfingar með jöfnum aðgangi fyrir alla einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda.“ sagði Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, m.a. í erindi sínu á fundi með fulltrúum launamanna og atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða þar sem farið var yfir ávinning af starfi VIRK.

Mikill ábati af starfsemi Virk
Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur hjá Talnakönnun hefur gert athugun á ávinningi af starfsemi VIRK. Markmiðið hjá honum var að finna mælikvarða á sparnað af starfsemi VIRK sem taki mið af raunverulegum árangri undanfarin ár, árangri sem felst í að flýta endurhæfingu, stytta tímabil óvinnufærni einstaklinga og minnka tíðni örorku.

Benedikt segir erfitt að finna einhlítan mælikvarða á árangurinn, en mikilvægt sé að skoðuð sé sama kennitala á hverju ári, fylgjast þyrfti með fólki eftir að það útskrifast og leita þurfi fleiri mælikvarða og kanna erlendar rannsóknir.

Benedikt sagði niðurstöður greiningarinnar, að gefnum varfærnum forsendum, benda eindregið í þá átt að starfsemi VIRK sé mjög arðbær, um 10 milljarða króna ávinningur hafi verið af starfseminni árið 2013 og ábatinn af starfseminni skili sér bæði til Tryggingastofnunar, lífeyrissjóða og ríkisins í formi aukinna skatttekna. Ofan á þetta bætist síðan ábati einstaklingsins.

Meira um málið í frétt á heimasíðu Virk.