Skip to main content
VMF

Réttindi þín í desember

By desember 5, 2022No Comments

Til að njóta gæðastunda um jólin – og allt árið um kring – á félagsfólk LÍV rétt á 11 klukkustunda hvíld á sólarhring að lágmarki. Ef 11 klst. hvíld næst ekki skal veita hana síðar. Þannig safnast svokallaður frítökuréttur upp. Fyrir hverja klst. sem 11 tíma hvíldin skerðist um öðlast starfskraftur 1,5 klst. í dagvinnu í frítökurétt.

– – –

Desemberuppbót til félagsfólks LÍV skal greiðast eigi síðar en 15. desember og er 98.000 kr. fyrir fullt starf á árinu 2022.

Frídagar yfir hátíðirnar eru:

Ekki er vinnuskylda á eftirfarandi dögum og skal starfsfólk halda sínum dagvinnulaunum óskertum.

Eftir kl. 12 á aðfangadag (stórhátíðardagur)
Jóladagur (stórhátíðardagur)
Annar í jólum (almennur frídagur)
Eftir kl. 12 á gamlársdag (stórhátíðardagur)
Nýársdagur (stórhátíðardagur)

Auk þess má minna á að fyrsta vinnudag eftir jól skal dagvinna í verslunum hefjast kl. 10.

Laun á frídögum

Starfsfólk á að halda föstum og reglubundnum launum á skilgreindum frídögum. Samþykki starfsfólk að taka að sér vinnu á skilgreindum frídögum skal greiða sérstaklega fyrir þá vinnu, til viðbótar við greiðslu fyrir fastan og reglubundinn vinnutíma. Eftirvinnukaup skal greiða fyrir þá tíma upp að 167,94 klst. í verslun eða 159,27 klst. í skrifstofustarfi. Greitt er yfirvinnukaup fyrir vinnu umfram fyrrnefnda tíma. Stórhátíðarkaup er greitt fyrir alla vinnu sem unnin er á stórhátíðardögum.

Kaupið reiknast þannig:

  • Eftirvinnukaup: 0,8235% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu í verslun.
  • Næturvinnukaup: 0,8824% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu í verslun.
  • Eftirvinnukaup: 0,875% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu á skrifstofu.
  • Næturvinnukaup: 0,9375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu á skrifstofu.
  • Yfirvinnukaup: 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu á skrifstofu og í verslun.
  • Stórhátíðarkaup: 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu á skrifstofu og í verslun.

Ef starfskraftur er ráðinn inn í verslun yfir jólin tímabundið, t.d. einungis í þrjár vikur og vinnur umfram 116,25 tíma (7,75 tímar x 15 dagar) skal greiða yfirvinnukaup fyrir alla tíma sem unnir eru umfram það.

Stórhátíðarvinna

Stórhátíðarvinna er vinna á nýársdegi, föstudeginum langa, páskadegi, hvítasunnudegi, 17. júní, frídegi verslunarmanna, jóladegi og eftir kl. 12:00 á aðfangadegi og gamlársdegi.

Öll vinna sem er unnin á stórhátíðum greiðist með tímakaupi sem nemur 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Daglegur hvíldartími

Á hverjum sólarhring á starfskraftur rétt á 11 klst. hvíld. Óheimilt er samkvæmt lögum að skipuleggja vinnu á þann hátt að vinnudagurinn sé lengri en 13 klst.

Ef 11 klst. hvíld næst ekki skal veita hana síðar. Þannig safnast svokallaður frítökuréttur upp. Fyrir hverja klst. sem 11 tíma hvíldin skerðist um öðlast starfskraftur 1,5 klst. í dagvinnu í frítökurétt.

Dæmi: Starfskraftur hefur störf kl. 08:00. Hann lýkur störfum kl. 23:00 og kemur aftur til vinnu kl. 08:00 daginn eftir. Samfelld hvíld á milli vinnudaga er einungis 9 klst. Hvíldartími hefur þ.a.l. verið skertur um 2 klst. og öðlast viðkomandi starfskraftur því frítökurétt upp á 3 klst. fyrir vikið.

Undir öllum kringumstæðum er óheimilt að skerða 8 klst. samfellda hvíld.

Matar- og kaffitímar

Hádegismatartími: Á bilinu ½ – 1 klst. (háð samkomulagi). Þessi matartími telst ekki til vinnutíma. Starfsfólk þarf að vinna a.m.k. 5 klst. til að öðlast rétt til matartíma í hádeginu.

Kvöldmatartími: 1 klst. ( á milli kl. 19 og 20) og telst til vinnutíma. Ef kvöldmatartíminn eða hluti hans er unninn skal greiða þann hluta með tvöföldu kaupi. Réttur til kvöldmatartíma miðast við a.m.k. 4,5 klst. vinnu.

Kaffitími: 35 mínútur á dag hjá afgreiðslufólki, (15 mín hjá skrifstofufólki) miðað við fullan vinnudag. Er veitt í beinu hlutfalli við vinnutíma starfsfólks í hlutastörfum.

Sé unnið utan dagvinnutímabils skal matartími vera frá kl. 3:00–4:00 og kaffitímar frá kl. 22:00–22:20 og kl. 6:15–6:30.

Á Þorláksmessu er þó heimilt að veita 20 mínútna kaffitíma á tímabilinu frá kl. 21:40-22:20. Ofangreindir matar- og kaffitímar teljast til vinnutíma og sé unnið í þeim greiðist tilsvarandi lengri yfirvinna.

Skráning vinnutíma

Það er alltaf góð vinnuregla að halda utan um alla sína vinnutíma og sérstaklega þegar mikið er að gera eins og á aðventunni. Í mörgum tilvikum er um talsverða aukavinnu að ræða og mikilvægt að halda vel utan um tímaskráningu svo komast megi hjá misskilningi og mistökum við útreikning launa.

Þar sem flestar verslanir ráða tímabundið til sín skólafólk yfir háannatímann er einnig mikilvægt að hnykkja á þessu atriði við nýtt samstarfsfólk.

Tímaskráningarappið Klukk frá ASÍ er hentugt að hafa í símanum en hægt er að sækja appið í App store fyrir Iphone og Play store fyrir Android síma.

Vikulegur frídagur

Vinnu skal skipuleggja á þann hátt að hver starfskraftur fái a.m.k. einn vikulegan frídag.

Ef starfskraftur er látinn vinna 7 daga í röð á hann rétt á fríi á virkum degi í næstu viku á eftir, án skerðingar launa.

Helgarvinna

Þegar unnið er á laugardögum og sunnudögum greiðist aldrei minna en fyrir 4 klst., þótt unnið sé skemur.