Af 337 vörum sem bornar voru saman voru verð nákvæmlega þau sömu í 208 tilfellum. Þegar eftirstandandi verð voru borin saman var verðlag í Heimilistækja-samstæðunni lægra en í Elko. Í Elko var verð að meðaltali 2,7% hærra en lægsta verð. Verð í Heimilistækja-samstæðunni var að meðaltali 1,7% hærra en lægsta verð. Verðmunurinn var í einhverjum tilfellum verulegur, upp á tugi þúsunda króna, helst þegar um afslætti var að ræða.
Þegar munurinn er stærri
Til dæmis var LG 55 tommu sjónvarp á 15.000 krónu afslætti í Heimilistækjum og Rafland og á 22.000 krónu afslætti í Elko. Án afsláttar var verðmunurinn ein króna, eða 0,001%.
SanDisk Cruzer Blade 64GB minnislykill var á 40% afslætti í Elko, og því 1.201 krónu ódýrari en í Rafland og Tölvulistanum. Án afsláttar var verðmunurinn ein króna.
LG 86 tommu UR78 sjónvarp var á 19% afslætti í Elko og því 60.001 krónu ódýrari en í Heimilistækjum. Án afsláttar var verðmunurinn ein króna, eða 0,0003%.
Dæmi voru um vörur sem ekki voru á afslætti en sem þó var mikill verðmunur á. Til dæmis voru tólf sortir af Canon prentbleki 4-35% dýrari í Elko. Fjórar sortir voru jafndýrar og í Heimilistækja-samstæðunni.
Lítill verðmunur milli fyrirtækjanna
Frá 15. maí hefur hlutfall þess verðs sem er eins í Elko og Heimilistækja-samstæðunni verið tiltölulega stöðugt, eða á bilinu 60-64%. Meðalverðmunurinn hefur verið um 1.270 krónur á þessum tíma, en um 3.400 krónur ef aðeins er horft til vara sem ekki eru á sama verði í báðum búðunum.
Hafa ber í huga að hér er aðeins um lítinn hlut vöruúrvals verslananna að ræða, þ.e. þær vörur sem eru samanburðarhæfar milli verslana. Vöruúrval hverrar verslunar er í þúsundatali, en samanburðargögnin ná til nokkur hundruð vara.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.