Skip to main content

„Nýtt Ísland verður ekki byggt upp með stjórendum gömlu svikamillunar haldandi í alla spotta, á meðan okkur almenningi í landinu, er ætlað það hlutverk eitt að sópa upp rústum og ruslinu sem þessir snillingar hafa búið til með óteljandi góðærispartýum.
Þolinmæði og langlundargeð launþega er á þrotum. Við eigum ekki með nokkru móti að sætta okkur við þá kyrrstöðu og ráðaleysi sem einkennt hefur gjörðir stjórnvalda undanfarin misseri.
Við verðum að beita þrýstingi og samtöðu til að særa fram samstarf um auknar framkvæmdir og þannig tryggja stöðugra atvinnustig.“

Hátíðarræða 1.maí 2010

Skagfirðingar, til hamingju með daginn !

Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa hátíðarsamkomu stéttarfélaganna í Skagafirði á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks.

Víðsvegar um heiminn standa verkamenn enn þann dag í blóðugum átökum fyrir grundvallar mannréttindum, réttindum sem okkur hérna heima á Íslandi þykja alveg sjálfsögð en eru svo sannarlega ekki sjálfgefin.

Barátta verkafólks á Íslandi fyrir mannsæmandi réttindum hefur verið þyrnum stráð og á tíðum mjög hatröm. Fæst gerum við okkur almennt grein fyrir því hverju áratugalöng barátta samtaka verkafólks hefur náð fram í velferðarmálum sem okkur þykja sjálfsögð í dag.

Í þessu samhengi vitna ég til orða Grétars Þorsteinssonar fyrrum forseta ASÍ þar sem hann talar um óþolinmæði okkar í kjarabaráttu, þar finnist okkur ekkert ganga, að við séum vanmáttug og lin við að takast á við þau verkefni sem fyrir okkur liggja.

 

Þetta er hárrétt hjá Grétari, við gerum miklar og ríkar kröfur til kjarabaráttunnar, að hún skili okkur velferð og velmegun. Það er sjálfsagt að gerð sé krafa til stéttarfélaganna, en við megum ekki vera ósanngjörn í gagnrýni okkar á störf þeirra sem standa í framvarðarsveitinni.

 

Skipuleg barátta fyrir bættum kjörum í tæplega 100 ár ásamt órjúfanlegri samstöðu hinna vinnandi handa hefur skilað okkur þeim ávinningi sem við njótum í dag. Samstöðu sem byggir á samhug, náungakærleik og því sem mestu skiptir, að bera hag heildarinnar fyrir brjósti.

 

En til þess að svo megi verða þá verðum við öll að taka þátt í þeirri baráttu, ekki eingöngu vera þiggjendur og farþegar.

 

Þrátt fyrir erfitt ástand á vinnumarkaði undanfarin misseri þá getum við glaðst yfir þeim áföngum sem við höfum náð samstöðuna að vopni, því þeir eru fjölmargir.

 

Því er vert að stikla á nokkrum mikilvægum atriðum sem hafa náðst fram með baráttu verkalýðsfélaganna í landinu,  og fara yfir hverju sú barátta hafur skilað landsmönnum öllum.

Verkalýðshreyfingin hefur löngum barist fyrir því að fá hinn óheyrilega langa vinnudag verkafólks styttan. Árið 1910 var fyrst gerð tilraun til að lögbinda 10 tíma vinnudag en ekkert þokaðist fyrr en þingmenn ASÍ tóku umræður um hvíldartíma sjómanna upp á Alþingi.

Í framhaldinu komu Vökulögin fram sem tryggðu íslenskum Sjómönnum sex tíma hvíld á sólahring. Vökulögin er eitt fyrsta dæmið um réttindi sem áunnist hafa vegna verkalýðsbaráttu.

Árið 1920 heyrist í fyrsta sinn krafan um 8 stunda vinnudag hérlendis, hjá prenturum. Eftir hörð átök á vinnumarkaði 1942 náðist fram 8 stunda vinnudagur inn í kjarasamninga. En það var ekki fyrr en 1972 sem 40 stunda vinnuvika var loks lögfest.

 Fyrstu lögin um almannatryggingar voru sett 1936 eftir margra ára þref á Alþingi. Andstæðingar verkamanna héldu því meira að segja fram í fullri alvöru að almennileg samfélagsþjónusta myndi ýta undir veikindi og leti.

Með almannatryggingunum var viðurkennt að allir í samfélaginu bæru ábyrgð á að framfleyta þeim sem ekki höfðu tök á því sjálfir. Með endurskoðun á lögunum um almannatryggingar 1946 var félagslegt öryggi sett í öndvegi og bótarétturinn rýmkaður.

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur eða vinnulöggjöfin eins og hún er oftast kölluð var lögtekin árið 1938. Með vinnulöggjöfinni er mótaðar samskipta- og leikreglur á íslenskum vinnumarkaði.

Helsta markmið hennar er að tryggja vinnufrið í landinu. Lögin eiga að tryggja að vegna árekstra sem kunna að skapast á milli aðila vinnumarkaðarins hljótist sem minnst tjón fyrir atvinnulífið í landinu.

Lög um Atvinnuleysistryggingar voru hugsaðar til að tryggja þeim sem eru í atvinnuleit lágmarksframfærslu þangað til starf hefst á nýjan leik.

Réttinn til orlofs fékk íslenskt verkafólk 1943, eftir að frumvarp þess efnis hafði legið fyrir Alþingi árum saman. Blað ASÍ, Vinnan, nefndi árangurinn “…réttarbót, sem telja verður stórsigur í hagsmunabaráttu íslenzks verkalýðs.”

ASÍ lagði strax áherslu á að fólk gæti nýtt orlof sitt sem best og liður í því var bygging orlofshúsa víðs vegar um landið. Þau fyrstu risu í Ölfusborgum 1962, en landssvæðið við Hveragerði fékk Alþýðusambandið að gjöf frá þáverandi forsætisráðherra.

Í kjarasamningi ASÍ og vinnuveitenda árið 1969 var kveðið á um að stofnaðir skyldu lífeyrissjóðir á félagslegum grundvelli fyrir alla launamenn innan Alþýðusambandsins. Þá hafði verið rætt um almenna lífeyrissjóði á Alþingi frá 1957.

Nýr samningur var gerður um sjóðina 1995 þar sem grunnstoðirnar þrjár voru áréttaðar; samtrygging, skylduaðild og sjóðssöfnun.

Þá má einnig telja hér upp áfanga eins og Sjúkrasjóði stéttarfélaganna – Kvennafrídaginn – Fæðingarorlof og nokkru síðar feðraorlof og fræðslusjóðir stéttarfélaganna og nú síðast starfsendurhæfingarsjóð, svo nokkur mikilvæg atriði séu nefnd.

Undanfarna mánuði og vikur hefur mikið af kröftum verkalýðshreyfingarinnar farið í það að verja það sem áunnist hefur í gegnum tíðina. Mikil orka hefur farið í baráttu og strögl við ríkisstjórn landsins, ríkisstjórn sem kjörin var til að standa vörð um heimili landsmanna.

Ríkisstjórn sem verkalýðshreyfingin hefur gert samning um stöðugleika á vinnumarkaði, ríkisstjórn sem virðist ekki víla fyrir sér að ganga á bak orða sinna og jafnvel seilast í þá átt að okkar fólk verði fyrir umtalsverðum réttindamissi.

Í vetur höfum við orðið þess áskynja að stjórnvöld munu ekki víla fyrir sér að höggva í áratugalanga réttindabaráttu verkafólks.  Má í því samhengi nefna atlögu félagsmálaráðherra að atvinnuleysisbótum og fæðingarorlofssjóði.

Í vetur sem leið átti að ganga fram af fullri hörku af hálfu félagsmálaráðherra við að brjóta niður bótakerfi sem verkalýðshreyfingin hefur náð að byggja upp. Með Alþýðusambandið í fylkingarbrjósti náðist að koma í veg fyrir að þær breytingar næðu framgangi.

Þá er einnig rétt að minna á hugmyndir fjármálaráðherra varðandi afnám sjómannaafsláttarins. En slíkt inngrip inn í kjaramál ákveðinnar starfsstéttar í landinu er með öllu ólíðandi. Þessari fyrirhuguðu aðför að kjörum sjómanna hefur verið mótmælt harðlega af samtökum sjómanna.

Það er engin tilviljun að á sama tíma og skerðing sjómannaafsláttarins á að hefjast, í byrjun næsta árs, eru kjarasamningar sjómanna lausir.  Með þessum hætti er ráðherra vísvitandi að hafa áhrif á kjaraviðræður sjómanna og útvegsmanna.

Þá höfum við orðið vitni að því að samgönguráðherra hikar ekki við að beita hótun um lagasetningu á kjarabaráttu og verkföll sé þess óskað af hálfu atvinnurekenda. Er þetta tónninn sem verður gefinn þegar kemur að samningaviðræðum á almennum markaði í haust? 

Skilaboð Alþingismanna til vinnandi stétta eru mjög skýr,  þeir munu ekki hika við að taka af launafólki  þeirra áhrifaríkasta vopn. Vopnið sem best hefur dugað í  baráttunni fyrir bættum kjörum, verkfallsvopnið.

Þetta sterka vopn verkafólks í baráttunni fyrir bættum kjörum má ekki undir neinum kringumstæðum gefa eftir, vilji menn átök þá er slík framkoma besta leiðin til að framkalla þau.

Í því samhengi vitna ég í orð Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ frá ársþingi SGS þar sem forsetinn bríndi þingfulltrúa með þessum orðum „ Ef þeir vilja stríð þá fá þeir stríð“. 

Ein stærstu svik ríkisstjórnarinnar við launafólk í landinu eru vanefndir á hinum margumtalaða Stöðugleikasáttmála, sem í raun er ekkert annað en kyrrstöðu samningur fyrir okkar fólk, já kyrrstöðusamningur er réttnefni á bastarðinum.

Hinn almenni launaður hefur ekki borið það úr býtum sem lofað var í sáttmálanum, almennum stöðugleika á vinnumarkaði.

Lítið hefur verið efnt af loforðunum þó eitthvað hilli undir með framkvæmdir og fyrirheit um aukna atvinnu þegar kemur fram á sumarið.

Nei, á því ári sem brátt er frá því Stöðugleikasáttmálinn var undirritaður hefur launfólk á Ísland orðið fyrir hverju áfallinu á fætur öðru í formi gríðalegra hækkana á nauðsynjavörum ásamt aukinni skattpíningu bæði í formi hækkunar tekjuskatts og jaðarskatta sem rífa krónurnar úr hálftómum buddum hjá íslensku verkafólki.

Það fór nefnilega þannig að þegar ríkisstjórnin loksins kom sér að því að breyta skattkerfinu og koma upp þrepaskiptu skattkerfi, þá var valin sú leið að láta lág – og millitekjufólk taka á sig hlutfallslega meiri skell en aðra hópa í þjóðfélaginu.

Hvaða réttlæti er í því að launþegi með rétt rúm 200 þús í mánaðarlaun skuli þurfa að greiða  tæplega þriðjung af tekjum í skatta og útsvar ?

Hvernig á slíkur einstaklingur að ná endum saman þegar allt hefur hækkað nema kaupið ?

Hann einfaldlega getur það ekki. Er þetta hið nýja Ísland sem við viljum byggja ? Ég segi Nei og aftur Nei.

Stjórnvöld geta ekki endalaust ætlast til þess að almenningur í landinu sjái um að halda þjóðarskútunni á réttum kili.

Töluvert af tíma stéttarfélaga í landinu eftir bankahrun hefur farið í að verja  réttindi sem náðst hafa fram með árátugalangri baráttu.

En það loga víða eldar sem erfitt hefur reynst að slökkva og er sem nýjir kvikni jafnharðan og aðrir hafa verið slökktir.

Sótt er að launafólki úr öllum áttum, ekki eingöngu frá atvinnurekendum á almennum markaði heldur hafa forstöðumenn ríkisstofnana og sveitarfélaga einnig gengið í lið með óprúttnum atvinnurekendum og seilast annsi langt í að skerða kjarasamningsbundin réttindi launafólks.

Má í því sambandi nefna að þrátt fyrir fögur fyrir heit um að ekki verði ráðist á fólkið á lægstu laununum inn á stofnunum þá virðist sagan endurtaka sig, að niðurskurður og sparnaður nái sjaldnast upp fyrir gólflistana.

Í því atvinnuástandi sem við okkur blasir má í raun segja að það sé verið að svínbeigja verkafólk til að gefa eftir af kjarasamningsbundnum lágmarksréttindum sínum til að halda vinnunni.

Þetta er að sjálfsögðu með öllu ólíðandi og þarf launafólk að standa saman og með stéttarfélögunum til að snúa þessari öfugþróun við.

Starfsfólk stéttarfélaganna verður því miður vitni að því,  nánast í hverri viku að einhver félagsmaður leitar ásjár og aðstoðar hjá félaginu þar sem fyrir liggur að skerða laun eða önnur kjarasamningsbundin réttindi.

Til lengri tíma munu slíkar aðgerðir leiða af sér enn frekari samdrátt í samfélaginu, samdrátt sem við þurfum síst á að halda eins og nú árar.

Félagsmenn okkar eru gjörsamlega ráðþrota, en yfir þeim hangir hótunin um uppsögn sætti þeir sig ekki við það sem fyrir þá er lagt.

Þarna er ekki verið að ráðst á feitu bitana, það er fólkið okkar sem gjarnan er á strípuðum töxtum sem ráðist er á.

Það er ömurlegt og sárar en orðum taki að verkalýðshreyfingin skuli ekki fá stuðning félagshyggju ríkisstjórnar til að stöðva þessa ósvinnu.

Kjörorð ASÍ “Einn réttur ekkert svindl“ á fullt erindi í samfélagsumræðuna, því taka þarf á misrétti og ójöfnuði sem enn virðist dafna í þjóðfélaginu. 

Almenningur hefur orðið misréttis og ójöfnuði áþreifanlega var á eigin skinni.     Í dag er það réttur rukkara og fjármagnseigenda sem kemur fyrst en síðastur kemur réttur almennings.

Þetta sést best á því hvernig rétti rukkaranna gaganvart almenningi er háttað, en ekkert er blakað við fjárglæframönnum sem fengu að skáka óáreittir í skjóli Allþingis og eftirlitsaðila eins og nýlega útkomin skýrsla staðfestir.

Og þeir skara enn eld að eigin köku án þess að mikið sé aðhafst.

Við sjáum fulltrúa rukkaranna vaða inn á heimili almennings og húsnæði þess boðið upp sé ekki staðið í skilum með greiðslur á réttu tíma. Þar er svigrúmið lítið og samúðin engin. 

Almenningi í landinu er ekki vorkennt þegar bjóða á ofan honum. Þá er ekki verið að spyrja hvort börn almennings verði fyrir óbætanlegu sálrænu tjóni af völdum innheimtumanna bankanna.

Nei því fer víðsfjarri.  

Við höfum orðið vitni að hneykslun yfir mótmælum almennings fyrir framan hús fjárglæframanna og óreiðufólks. Þá er talað um friðhelgi einkalífsins og það aðkast sem fjölskyldur þeirra og ekki síst börn verða fyrir.

Fjárglæframenn áttu  val sem almenningur hafði ekki,  þeir völdu að fara þá leið sem stjórnaðist af græðgi og siðblindu án þess að hugsa um hag almennings.  

Með þessu athæfi völdu þeir að stofna sér og sínum í hættu án þess að þurfa að taka afleiðingum gjörða sinna.

Eftir situr almenningur í landinu blóðrisa eftir vönd innheimtumanna sem dynur á þeim sem ekki hafa staðið í skilum með hverja krónu. 

Það á ekki að vorkenna fjárglæframönnum sem leggjast svo lágt að skýla sér á bak við fjölskylduna þegar á hólminn er komið.

Almenningur valdi ekki þann klafa að þurfa borga skuldir óreiðumanna eftir bankahrunið og skyldi engan undra þótt undan láti.

Það þarf mikið að ganga á svo að langlundargeð þjóðarsálarinnar sé svo kvalið að einstaklingar finni hjá sér þörf til að mótmæla fyrir utan heimili þessara óreiðu einstaklinga.

Megin áhersla hefur nefnilega verið lögð á að bjarga fjármagnseigendum og koma þeim að kjötkötlunum að nýju. Að þessu er unnið leynt og ljóst en skýrasta dæmið um viðvarandi siðleysi er hvernig fyrrum eigendum bankanna hafa verið tryggð áhrif og völd í fjármálalífi Íslendinga á nýjan leik.

Nýtt Ísland verður ekki byggt upp með stjórendum gömlu svikamillunar haldandi í alla spotta, á meðan okkur almenningi í landinu, er ætlað það hlutverk eitt að sópa upp rústum og ruslinu sem þessir snillingar hafa búið til með óteljandi góðærispartýum.

Þolinmæði og langlundargeð launþega er á þrotum. Við eigum ekki með nokkru móti að sætta okkur við þá kyrrstöðu og ráðaleysi sem einkennt hefur gjörðir stjórnvalda undanfarin misseri.

Við verðum að beita þrýstingi og samtöðu til að særa fram samstarf um auknar framkvæmdir og þannig tryggja stöðugra atvinnustig.

Leggjum okkar lóð á vogaskálarnar og hvetjum til áræðni í ákvarðanatöku okkar fólki til heilla. Látum ekki hrakspár um stöðnun eða algjört hrun verða að veruleika.

Knýjum á um að stóraukna innspýtingu í atvinnulífið svo hagvöxtur í landinu taki að vaxa á nýjan leik.

Látum ekki etja okkur saman líkt og var ástundað fyrir miðja síðustu öld þegar þrengdi verulega að á vinnumarkaði. Á þeim tíma var reynt að brjóta níður baráttuvilja verkafólks með öllum tiltækum ráðum.

Við megum ekki láta slíkt henda aftur, til of mikils hefur verið barist.

Launþegasamtök í landinu verða að vinna saman þegar á eitthvert okkar er hallað. Sýna hvort öðru samstöðu, ekki bara í orði heldur líka í verki.

Beri okkur gæfu til að hafa slíkt að leiðarljósi er launafólki allir vegir færir.

Samtök launþega í landinu verða að standa hvert með öðru í þessari baráttu. Þar skiptir ekki máli hvort einhver telji körfurnar ekki raunhæfar, því það er skylda launþega að styðja hvorn annan í baráttunni fyrir bættum kjörum.

Á næstu vikum og mánuðum má búast við því að mikið muni mæða á samstöðu og samtakamætti alls launafólks. Verum þess minnug að áratugalöng barátta verkalýðshreyfingarinnar hefur skilað okkur þangað sem við erum í dag, bæði í velferðar og kjaramálum.

Þetta velferðarsamfélag ber okkur skylda til að verja með öllum hugsanlegum ráðum. Með samstöðuna að vopni munum við launþegar áfram vinna okkar stærstu sigra.  

Skagfirðingar verum þess minnug hverju áratugalöng barátta hefur skilað okkur.

Látum slagorð dagsins vera okkur að leiðarljósi og stöndum þétt saman með félögum okkar sem eiga í baráttu fyrir bættum kjörum og tryggari atvinnu – Við Viljum Vinna.