Skip to main content
VMF

Tekjuöflun ríkisins lögð á almenning

By október 16, 2023No Comments

 

Verdbolga Upp
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur birt umsögn um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024 og frumvarp um breytingar á ýmsum gjöldum. Í umsögninni er áréttuð sú afstaða Alþýðusambandsins að í fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 sé ekki að finna markvissar aðgerðir til að draga úr verðbólgu og bregðast við afkomu- og húsnæðisvanda heimilanna í landinu.  

Í umsögninni segir að fjárlagafrumvarpið nú sé í takt við ríkisfjármálastefnu síðustu ára. Sem fyrr leggist tekjuöflun ríkisins einkum á almenning, nú í formi hækkaðra krónutölugjalda og skattlagningar á ökutæki. Minnt er á að ASÍ hafi ítrekað bent á leiðir til að tekjuöflunar sem ekki komi niður á almenningi af fullum þunga og eru umbætur á skattakerfinu nefndar til sögu. Þar er einkum átt við breytingar í skattlagningu fjármagnstekna, að girt verði fyrir tekjutilflutning, innleidd verði auðlindagjöld sem taka mið af auðlindarentu, komugjöld í ferðaþjónustu og hækkun bankaskatts.  

Íþyngjandi húsnæðiskostnaður 

Í umsögn ASÍ er einnig vikið að ófremdarástandi í húsnæðismálum og nauðsyn aðgerða á því sviði. Minnt er á að í nýjustu efnahagsúttekt fyrir Ísland hafi Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) gert húsnæðismál að sérstöku umfjöllunarefni íþyngjandi húsnæðiskostnað leigjenda. Þá er fjallað um rýrnun barnabóta og nauðsyn þess að auknu fjármagni verði varið til þeirra. Ítrekuð eru andmæli við áform stjórnvalda um slit og uppgjör ÍL-sjóðs og hvatt til þess að frá þeim verði horfið.  

Þrengir hratt að heimilunum 

Þá er vikið að komandi kjarasamningum sem sagt er að verði krefjandi í umhverfi mikillar verðbólgu, hárra vaxta og hægari efnahagsvaxtar. Hratt þrengi að heimilum landsmanna nú um stundir vegna minnkandi kaupmáttar ráðstöfunartekna, aukinnar vaxtabyrði, meiri húsnæðiskostnaðar og hækkunar á verði nauðsynjavöru. Aðgerðir stjórnvalda til stuðnings kjarasamningum séu því nauðsynlegar til að verja kaupmátt heimila og ná niður verðbólgu og vaxtastigi. 

Umsögnina má nálgast hér:

https://www.althingi.is/altext/erindi/154/154-109.pdf