Skip to main content
VMF

Heilsa og fjárhagsstaða fólks sem starfar við ræstingar verri en annarra

By september 27, 2023No Comments
ASI Fréttir 24
Ný skýrsla Vörðu – Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins sýnir að staða þeirra sem starfa við ræstingar er verri en þeirra sem eru í öðrum störfum á öllum mælikvörðum.

Tæplega 6 af hverjum 10 sem starfa við ræstingar eiga erfitt með að ná endum saman og tæplega 2 af hverjum 10 búa við efnislegan skort. Þá er lægra hlutfall þeirra en fólks í öðrum störfum sem metur líkamlegt heilsufar gott (39% á móti 50%) og andleg líðan mælist sömuleiðis mun verri meðal þeirra sem starfa við ræstingar. Til viðbótar hafa þau sem starfa við ræstingar í meira mæli orðið fyrir réttindabrotum á síðastliðnum 12 mánuðum.

Í skýrslunni er að finna ítarlega greiningu á niðurstöðum rannsóknarinnar.

„Við erum að tala hér um hóp fólks sem sinnir gríðarlega mikilvægum störfum sem að mælist með talsvert verri lífsskilyrði á öllum mælikvörðum en annað fólk á vinnumarkaði. Það er auðvitað óboðlegt og ljóst að þurfi að taka til hendinni til að tryggja fólki sem starfar við ræstingar ásættanleg launakjör og starfsaðstæður,“ segir Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdarstjóri Vörðu.

Rannsóknin náði til félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og BSRB – heildarsamtaka stéttafélaga starfsmanna í almannaþjónustu. Þetta er þriðja árið í röð sem könnun á lífsskilyrðum launafólks er gerð og hefur fjöldi svara aldrei verið meiri en nú.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.