Framkoma Virðingar og SVEIT er að mati formannafundar LÍV atlaga að réttindum launafólks og markar afturför í kjarabaráttu launafólk. Formannafundur LÍV hvetur launafólk sem og atvinnurekendur til að hafna þessari atlögu og sniðganga þau fyrirtæki sem stuðla að niðurbroti á íslenskum vinnumarkaði, en staðfest er að það eru Rok, Subway, Public House Gastropub, Hard Rock Café og Finnsson Bistro. Samstaða á vinnumarkaði er mikilvæg þegar kemur að því að standa vörð um grundvallarréttindi launafólks og á það að vera sameiginlegt verkefni aðila vinnumarkaðarins að tryggja þau.
Formannafundur LÍV fordæmir atlögu atvinnurekenda innan SVEIT, samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði, að réttindum og kjörum launafólks á Íslandi. SVEIT hefur stofnað gult stéttarfélag sem gengur undir heitinu Virðing og útbúið „kjarasamning“ sem felur í sér beinar kjaraskerðingar fyrir starfsfólk í veitinga- og gistihúsageiranum. Virðing uppfyllir ekki grundvallarkröfur sem gerðar eru til stéttarfélaga, heldur er um að ræða félag sem er stofnað af atvinnurekendum sem síðan semja við sjálfa sig, fremur en að semja við starfsfólk. Þar með flokkast Virðing sem gult stéttarfélag en slík félög grafa undan réttindum og hagsmunum launafólks og ganga í raun erinda atvinnurekenda.