Skip to main content
VMF

Brotið á fólki sem hagkerfið getur ekki verið án

By október 11, 2023No Comments
Ivm 2023 Img
Brotið á fólki sem hagkerfið getur ekki verið ánAlþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur birt nýja skýrslu um vinnumarkaðinn hér á landi. Sérstök áhersla er lögð á erlent launafólk og vinnumarkaðsbrot sem það verður fyrir.

Samkvæmt gögnum frá átta aðildarfélögum Alþýðusambandsins var rúmlega helmingur launakrafna í fyrra gerður fyrir félagsfólk af erlendum uppruna. Á sama tíma var erlent verkafólk um fimmtungur þess fjölda sem var á vinnumarkaði.

Í sérgreiningu Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins sem fylgir með skýrslunni kveðast 56% innflytjenda hafa orðið fyrir vinnumarkaðsbrotum á síðustu 12 mánuðum. Alls segjast 37% þátttakenda hafa orðið fyrir slíku misrétti á þessu tímabili.

Greining Vörðu leiðir enn fremur í ljós mismunun gagnvart fólki með annan húðlit en hvítan.

Hallar á innflytjendur á tvískiptum vinnumarkaði

Skýrslan dregur fram tvískiptingu vinnumarkaðar á Íslandi; hann samanstendur af heimafólki annars vegar og hins vegar innflytjendum. Síðarnefndi hópurinn stendur mun hallari fæti gagnvart brotum atvinnurekenda á vinnumarkaði.

Skýrslan leiðir einnig í ljós að ungt fólk er mun líklegra en hinir eldri að verða fyrir vinnumarkaðsbrotum.

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands:

Skýrslan sýnir að víða er pottur brotinn þegar athygli er beint að stöðu innflytjenda á vinnumarkaði. Í því efni skal því haldið til haga að erlenda launafólkið er hingað til lands komið til að uppfylla þörf atvinnulífsins fyrir vinnuafl. Hagkerfið getur ekki án þessa fólks verið.

Með öllu er óásættanlegt að fólk í viðkvæmri stöðu sem vinnur hörðum höndum í nýjum heimkynnum verði fyrir réttindabrotum á borð við að vera beinlínis rænt réttum tekjum sínum. Allir með sæmilega siðvitund hljóta að geta tekið undir þessa staðhæfingu.  Krafa verkalýðshreyfingarinnar er skýr; stöðva verður launaþjófnað í landinu.”

Skýrsluna má nálgast hér.