Gosdrykkir og brauðmeti hækkuðu snarpt um áramótin og Bónus og Krónan hækka verð talsvert meira en Prís. Þótt Prís sé langódýrasta matvöruverslunin hækkaði verðlag þar meira árið 2025 en í Bónus og Krónunni. Hækkanirnar koma fyrr fram en í janúar í fyrra. Þetta kemur fram í samanburði Verðlagseftirlits ASÍ á verðþróun matvöru í lágvöruverðsverslunum nú í janúar.
Ölgerðin, Coca-Cola og Myllan hækka
Borin voru saman verð þann 17. janúar síðastliðinn í Prís, Bónus og Krónunni og mátuð við verð á sömu vörum þann 10. desember síðastliðinn. Verð á vörum frá Ölgerðinni hafði hækkað um 3-4% að meðaltali í Bónus, Krónunni og Prís. Verð á vörum frá Coca-Cola á Íslandi hafði ekki hækkað í Prís en hækkaði um rúmlega 4% í Krónunni og rúmlega 5% í Bónus. Vörur frá Myllunni hækkuðu í verði um hálft annað prósent í Bónus að meðaltali, um 3% í Krónunni en ekki í Prís. Eru þetta veigamestu hækkanirnar frá byrjun ársins.
Vörur frá Kaffitár hækkuðu um rúmlega 5% í Bónus. Tekið skal fram að sumar birgjahækkanir koma inn á ólíkum tímapunktum eftir verslunum. Til dæmis höfðu vörur Kaffitár hækkað í verði þann 20. janúar í Krónunni um svipaða upphæð, en það var þremur dögum eftir verðkönnunina. Poki af Morgundögg möluðu kaffi kostar nú 1.349kr í Bónus og 1.350kr í Krónunni, en kostaði í ársbyrjun 1.279kr í Bónus og 1.280kr í Krónunni.
Bónus og Krónan byrja árshækkunina snemma
Hækkun á matvöruvísitölu Bónus og Krónunnar milli 10. desember og 17. janúar nemur 0,47%, sem gera 4,6% á ársgrundvelli – hærra en árshækkunin í verslununum tveimur, sem nam 3,7% í Krónunni og 4,2% í Bónus. (Hækkun á ársgrundvelli segir hversu mikil hækkunin væri ef hún ætti sér stað alla mánuði ársins.)
Í Prís breyttust verð lítið – á ársgrundvelli hækkaði verðlag þar um 0,8%. Undanfarið ár hefur verðlag þar hins vegar hækkað meira, eða um 5,7%.
Prís langódýrast en Bónus og Krónan á krónumun
Iðulega er krónumunur á verði Bónus og Krónunnar, nú sem fyrr. Í 953 verðsamanburðum af 1.091 var Krónan einni krónu dýrari en Bónus, eða í 87% tilfella.
Bónus var að meðaltali 4,7% dýrara en Prís þegar 474 vörur eru skoðaðar sem finna mátti í báðum verslunum. Krónan var 6,0% dýrari en Prís í samanburði á 601 vöru og 0,6% dýrari en Bónus í samanburði á 1.091 vöru.
