Formannafundur hefur þungar áhyggjur af hækkun leikskólagjalda
Formannafundur Landssambands ísl. verzlunarmanna lýsir yfir þungum áhyggjum af áformaðri hækkun leikskólagjalda í Fjarðabyggð. Hækkunin er sambærileg gjaldskrárhækkunum og þjónustuskerðingu sem hefur þegar tekið gildi í Kópavogi, á Akureyri og víðar. Hún gengur í berhögg við gildandi kjarasamninga sem voru gerðir á þeim grunni að hið opinbera myndi halda aftur af gjaldskrárhækkunum.
Formannafundur LÍV telur það skyldu hins opinbera að tryggja öllum börnum leikskólavist að loknu fæðingarorlofi og að til álita komi að leikskólar flokkist sem lögbundin þjónusta sveitarfélaga. Það er tímabært að binda enda á það fyrirkomulag að varpa álagi og fjárhagslegum byrðum á foreldra ungra barna. Leikskólinn er fyrsta skólastig barna og einnig grundvöllur þess að báðir foreldrar geti verið á vinnumarkaði og þannig séð fjölskyldu sinni farborða. Aukin gjaldtaka markar afturför og býður heim hættu á bakslagi í jafnréttismálum.
Formannafundur Landssambands ísl. verzlunarmanna skorar á Fjarðabyggð að falla frá áformum um hækkun leikskólagjalda og hvetur sveitarfélög þess í stað til að móta tillögur um hvað þurfi til að hægt sé að halda úti þjónustu leikskóla í samhengi við vinnudag launafólks á almennum markaði.