Skip to main content
VMF

ASÍ – Einungis 3% hlynnt orkuframleiðslu einkafyrirtækja

By október 18, 2024No Comments

Einungis 3% landsmanna eru hlynnt því að nýting auðlinda til orkuframleiðslu sé að miklu eða öllu leyti í höndum einkafyrirtækja. Þetta kemur fram í nýrri þjóðmálakönnun Alþýðusambands Íslands (ASÍ).

Spurt var: Hvort telur þú að nýting auðlinda til orkuframleiðslu (vatns, jarðhita og vinds) eigi að vera í höndum ríkisfyrirtækja eða einkafyrirtækja?

Alls kváðust 85% þeirrar skoðunar að nýting ætti alfarið eða að miklu leyti að vera í höndum ríkisfyrirtækja.  Hlutlaus lýstu sig 12%.

 

Ekki reyndist marktækur munur á milli kynja og eftir búsetu. Mestur stuðningur við að einkafyrirtæki hefðu þessa nýtingu með höndum reyndist í hópi þeirra með hæstu fjölskyldutekjur.

Þá töldu 9% í yngsta hópnum, 18 til 29 ára, að þessu væri betur komið að miklu leyti í höndum einkafyrirtækja.

Hins vegar taldi enginn í þessum aldurshópi að nýtingu auðlinda væri alfarið best komið í höndum einkafyrirtækja.

Í þessum sama hópi var hlutfall óákveðinna einnig hæst,  25%.

Með tilliti til stuðnings við stjórnmálaflokka reyndust 27% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins ekki hafa afgerandi skoðun á málinu og þar var stuðningur við einkaframtakið mestur. Alls töldu 9% stuðningsmanna flokksins að best færi á að nýting auðlinda til orkuframleiðslu væru að miklu leyti í höndum einkafyrirtækja en einungis 2% töldu að ríkið ætti ekki að koma þar nærri.

Hér má sjá nánari greiningu á svörum  við þessari spurningu.

 

Um könnunina:

Gallup framkvæmdi könnunina 12.-23. september 2024.

Þetta var netkönnun sem náði til 1.722 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, sem handahófsvaldir voru úr Viðhorfahópi Gallup.

Stærð úrtaks  og svörun:
Úrtak: 1,722
Svara ekki: 851
Fjöldi svarenda: 871
Þátttaka: 50,6%