Hjálparsamtök eiga í miklum erfiðleikum með að koma nauðsynjavörum til fólks og alvarlegur skortur er á vatni, mat og lyfjum. Almennir borgarar geta ekkert farið og yfir þrjú þúsund og fimm hundruð börn hafa látið lífið í átökunum.
Vopnahlé er eina leiðin til þess að bregðast við þessu ástandi – og það er skylda ríkja heims að þvinga Ísrael að samningaborðinu áður en það er um seinan. Þess í stað hafa sum valdamestu ríki heims réttlætt aðgerðir Ísraela undir þeim formerkjum að þeir eigi rétt á því að verja sig. En sá réttur veitir engum leyfi til að brjóta alþjóðalög og skeyta engu um mannfall almennra borgara. Með afstöðuleysi sínu hafa íslensk stjórnvöld veitt ofbeldisverkum blessun sína. Svonefnt „mannúðarhlé“ sem stjórnvöld hafa gert að lykilatriði í málflutningi sínum er pólitískt fegrunaryrði sem er til þess eins fallið að gera skammvinnt hlé á hernaðaraðgerðum í þeim tilgangi að koma nauðsynjum til fólks. Með því er ekki verið að krefjast vopnahlés og að árásum á almenna borgara linni.
Með viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu skipaði Ísland sér í hóp þeirra ríkja sem vilja vekja athygli á því óréttlæti sem íbúar Palestínu hafa mátt búa við í meira en hálfa öld: hernámi Ísraela, daglegu ofbeldi, skertu ferðafrelsi og aðskilnaðarstefnu. ASÍ krefst þess að íslensk stjórnvöld fylgi eigin stefnu og beiti sér af fullum þunga fyrir tafarlausu vopnahléi og endalokum hernáms Ísraels í Palestínu.