Laun ráðamanna hækkað umfram almenna launaþróun
Frá árinu 2019, þegar ný lög tóku gildi, hefur þingfararkaup alþingismanna hækkað um 22%. Sé launaþróun þingmanna frá 2019 skoðuð í samhengi við hækkanir á meðaltali reglulegra launa sérfræðinga og stjórnenda, á almennum vinnumarkaði og hjá ríkinu, kemur í ljós að þingfararkaup hefur hækkað umfram laun þessara viðmiðunarhópa. Samanburður leiðir í ljós að hlutfallslegar launahækkanir þingmanna eru 11-13 prósentum umfram hækkanir á launum sérfræðinga og stjórnenda á almennum markaði, á tímabilinu 2019-2022. Eins eru hlutfallslegar launahækkanir þingmanna um 3-5 prósentum umfram hækkanir sérfræðinga og stjórnenda hjá ríkinu sjálfu.
Í lífskjarasamningunum 2019 var samið um fastar krónutölur í samningum á almennum markaði ásamt sérstökum hagvaxtarauka. Markmið samningana var áhersla á hækkun lægstu launa en frá árinu 2019 hafa laun ósérhæfðra og verkafólks hækkað hlutfallslega mest. Þróun kjara ráðamanna hefur því ekki verið í samhengi við viðmiðunarhópa, þ.e. sérfræðinga og stjórnendur. Í þessu samhengi er eðlilegt að stjórnvöld geri grein fyrir launastefnu sinni og markmiðum varðandi launasetningu og launabil milli hópa. ASÍ bendir einnig á mikilvægi þess að ráðamenn deili kjörum með þjóðinni og sýni ábyrgð í að stuðla að sátt á vinnumarkaði.
Kjararáð lagt niður 2018 og nýtt fyrirkomulag tekur við
Launahækkanir ráðamanna og æðstu embættismanna eru ákvarðaðar með aðferðafræði sem tók við í kjölfar þess að Kjararáð var lagt niður.
Áður en Kjararáð var lagt niður höfðu ákvarðanir ráðsins síendurtekið valdið illdeilum á vinnumarkaði og bar þar hæst ákvörðun kjararáðs árið 2016, þar sem laun þingmanna voru hækkuð um 44 prósent. Árið 2016 hækkuðu laun æðstu stjórnenda ríkisins því langt umfram almenna launaþróun.
Sú aðferðafræði sem fest var í lög 2019, felur í sér að kjör ofangreinds hóps taki breytingum 1. júlí ár hvert um það sem nemur hlutfallslegri breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næsta almanaksár. Ákvörðunin var til bóta frá fyrra fyrirkomulagi og varð til þess að auka gagnsæi og draga úr geðþótta. Alþýðusambandið gerði engu að síður verulegar athugasemdir við að fyrirkomulagið yrði fest í sessi eftir umdeilda ákvörðun kjararáðs frá árinu 2016. Alþýðusambandið taldi þar nauðsynlegt að nýju fyrirkomulagi yrði ekki komið á fyrr en að útafkeyrsla kjararáðs yrði leiðrétt. Þar kallaði ASÍ eftir frystingu launa áður en fyrirkomulagi yrði breytt.
Við ákvörðun kjararáðs árið 2016 hækkuði þingfararkaup um 44% í einni ákvörðun, og alls 55% frá fyrra ári. Borið saman við regluleg heildarlaun sérfræðinga á almennum markaði fóru laun þingmanna úr því að vera 95% af meðallaunum sérfræðinga yfir í að vera 35% hærri. Á síðasta ári var þingfararkaup 34% hærra en laun sérfræðinga á almennum markaði.
Þó ákvörðun um endalok Kjararáðs hafi aukið gagnsæi og dregið úr geðþótta við launaákvarðanir æðstu stjórnenda ríkisins, þá voru fyrri ákvarðanir kjararáðs sem festu hátt launastig þessa hóps aldrei leiðréttar. Frá 2019 hafa kjör ráðamanna þróast umfram launaþróun á almenna markaðinum.