Skip to main content

Síðastliðinn miðvikudag undirrituðu Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins sameiginlega yfirlýsingu vegna sjálfboðaliða þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að sameiginlegur skilningur gildi á vinnumarkaði um störf sjálfboðaliða.

Síðastliðinn miðvikudag undirrituðu Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins sameiginlega yfirlýsingu vegna sjálfboðaliða þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að sameiginlegur skilningur gildi á vinnumarkaði um störf sjálfboðaliða. Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Heildarsamtök á vinnumarkaði hafa axlað sameiginlega ábyrgð á uppbyggingu vinnumarkaðarins og réttindum og skyldum sem þar gilda. Markmið samtakanna er að tryggja áfram samkeppnishæfan vinnumarkað þar sem samtök atvinnurekenda og launafólks semja um laun og önnur starfskjör í kjarasamningum. Aðilar vinnumarkaðarins bera þá skyldu að fylgja því eftir að farið sé að leikreglum á vinnumarkaði.

Það er sameiginlegt viðfangsefni aðila að stuðla að því að fyrirtæki í framleiðslu eða þjónustu, greiði laun og starfskjör í samræmi við kjarasamninga og lög hér á landi.

Ef kjarasamningar eru ekki virtir grefur það undan starfsemi annarra fyrirtækja og spillir forsendum eðlilegrar samkeppni og dregur úr ávinningi alls samfélagsins af traustu og heilbrigðu atvinnulífi.

Í því ljósi telja Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þeirra mikilvægt að sameiginlegur skilningur gildi á vinnumarkaði um störf sjálfboðaliða.

Samtökin árétta að það er andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í almenn störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja. Um þessi störf gilda ákvæði kjarasamninga, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks. Launafólk hefur sinnt þessum störfum og verður því ekki skipt út fyrir sjálfboðaliða.  Samningar við einstaklinga um lakari kjör en kjarasamningar kveða á um eru ógildir.

Sjálfboðaliðastörf eiga sér hins vegar langa sögu og eru mikilvæg þeim aðilum sem vinna í þágu almannaheilla að góðgerðar-, menningar- eða mannúðarmálum. Ekki eru gerðar athugasemdir við þau störf sjálfboðaliða enda byggi þau á langri venju og sátt hefur verið um.