Skip to main content
VMF

Vörukarfa ASÍ hækkaði um 5-16,6%

By júní 9, 2022No Comments

Vörukarfa ASÍ hækkaði í átta af átta matvöruverslunum sem könnunin nær til á rúmlega sjö mánaða tímabili. Vörukarfan hækkaði á bilinu 5-17%, mest hjá Heimkaup, 16,6% en minnst í Krónunni, 5,1%. Þetta er í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs á sama tímabili sem sýnir 6,2% hækkun á á mat- og drykkjarvöru. Næst mest hækkaði vörukarfan hjá Iceland, 12,4% og næst minnst hjá Bónus, 5,7%. Vörukarfa ASÍ endurspeglar almenn matarinnkaup meðalheimilis.

Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna.
16,6% hækkun á vörukörfunni í Heimkaup og 12,4% í Iceland

Mest hækkaði vörukarfan í Heimkaup, 16,6%. Drykkjarvörur er sá matvöruflokkur sem hækkaði mest hjá Heimkaup, 33,8% en kjötvara minnst, 6,7%. Næst mest hækkaði vörukarfan í Iceland, 12,4%. Mest hækkaði mjólkurvara hjá Iceland, 24,1% og er það mesta hækkun í þessum vöruflokki í könnuninni. Ef litið er til annarra verslana sem eru með meira vöruúrval, lengri opnunartíma eða eru staðsettar úti á landi má sjá að vörukarfan hækkar um 8,9% í Krambúðinni, um 7,5% í Kjörbúðinni og um 6,5% í Hagkaup.

Vörukarfan hækkar minnst í Krónunni, 5,1%

Þegar litið er til lágvöruverðsverslana má sjá að vörukarfan hækkaði mest í Nettó, 8,7% en minnst í Krónunni, 5,1%. Í Nettó voru mestar verðhækkanir í flokki kjötvara, mjólkurvara, osta og eggja, 11% í báðum flokkum. Minnst hækkaði verð á drykkjarvöru í Nettó, 1,6%. Í Krónunni hækkaði kjötvara mest í verði, 10% og mjólkurvara, ostar og egg næst mest, 8%. Verð á grænmeti lækkaði hins vegar um 1,3% og verð ávöxtum um 0,8%. Verð í öðrum matvöruflokkum í versluninni hækkaði um 3-5%. Í Bónus hækkaði vörukarfan um 5,7% Í Bónus varð mest hækkun á ávöxtum á tímabilinu, 10,3%. Þar á eftir kemur 8,9% hækkun á hreinlætis- og snyrtivöru og 8,3% hækkun á mjólkurvöru, ostum og eggjum eins og sjá má í töflunni hér að neðan.

Verð hækkar mikið í öllum vöruflokkum en mest á mjólk og ostum
Miklar verðhækkanir voru í öllum vöruflokkum en mest hækkaði verð í flokki mjólkurvara, osta og eggja eða á bilinu 8-25%. Bæði hækkaði verð í flokknum að meðaltali mest, um 14,2% auk þess sem miklar verðhækkanir í vöruflokknum náðu til allra verslana. Verð á kjötvöru, ávöxtum og grænmeti hækkaði einnig mikið en hafa ber í huga að ávextir, grænmeti og kjötvara eru matvöruflokkar þar sem verð sveiflast mest.

 

Minni hækkanir voru á hreinlætisvöru, sykur, súkkulaði og sælgæti og flokki ýmissa matvara sem samanstendur af fisk, olíum og feitmeti og þurrvörum og dósamat. Verð í þeim flokkum hækkaði að meðaltali á bilinu 6-7%.

Sjá nánar á heimasíðu ASÍ

Um könnunina
Verðkannanir á vörukörfunni voru gerðar 25. september – 3. október 2021 og 11. -18. Maí 2022. Verðlagseftirlit ASÍ mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar matar- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, og safa. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðal heimilis.

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Hagkaup, Kjörbúðinni, Iceland, Heimkaup og Krambúðinni. Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.