Skip to main content

Í gær sendi Vinnueftirlitið bréf til stéttarfélaga, fyrirtækja, stofnana og annarra sem málið varðar þar sem fjallað er um vinnu barna og unglinga. Í skrá Vinnueftirlitsins fyrir árin 2010-2015 kemur fram að vinnuslys meðal ungs fólks eru algeng en á þessu tímabili voru 420 vinnuslys tilkynnt hjá 18 ára og yngri.

Í gær sendi Vinnueftirlitið bréf til stéttarfélaga, fyrirtækja, stofnana og annarra sem málið varðar þar sem fjallað er um vinnu barna og unglinga. Í skrá Vinnueftirlitsins fyrir árin 2010-2015 kemur fram að vinnuslys meðal ungs fólks eru algeng en á þessu tímabili voru 420 vinnuslys tilkynnt hjá 18 ára og yngri.  Vinnueftirlitið vill því vekja athygli á reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga en hún nær til vinnu einstaklinga undir 18 ára aldri. Reglugerðina er að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins, www.vinnueftirlit.is. Vinnueftirlitið annast eftirlit með framangreindri reglugerð og að ákvæði hennar séu haldin.

Hvaða störf og hvenær?
Í reglugerðinni er fjallað ítarlega um hvaða störf mismunandi hópar mega vinna og ekki vinna, þó sú upptalning sé ekki tæmandi. Vakin er athygli á að ungmenni undir 18 ára aldri mega ekki vinna með hættuleg tæki eða að hættulegum verkefnum, sbr. 10. gr. og viðauka. Í reglugerðinni er einnig fjallað um áhættumat, leiðbeiningar og kennslu, vinnutíma, kvöld- og næturvinnu og hvíldartíma.

Áhættumat
Samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar er atvinnurekanda skylt að gera áhættumat og viðeigandi ráðstafanir byggðar á niðurstöðum matsins til að tryggja öryggi og heilsu ungmenna. Þetta skal gert áður en þau hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar eru gerðar á starfsskilyrðum þeirra.  Vinnueftirlitið beinir því til forráðamanna að slíkt áhættumat verði gert áður en störf hefjast í sumar, liggi það ekki fyrir nú þegar. Leiðbeiningar um áhættumat er að finna á heimasíðu stofnunarinnar.

Vinnuvernd alla ævi
Vinnueftirlitið vekur athygli á þema Evrópsku vinnuverndarvikunnar 2016-2017 „Vinnuvernd alla ævi“ en með því er verið að leggja áherslu á mikilvægi forvarna frá upphafi starfsævinnar, sjá http://www.vinnueftirlit.is/vinnuvernd/vinnuverndarvikur/2016/. Vinnueftirlitið hvetur forsvarsmenn til að kynna sér efni heimasíðunnar en þar er að finna hagnýtar upplýsingar til að stuðla að sjálfbærri vinnu alla ævi og heilbrigðri öldrun. Jafnframt er vakin athygli á ráðstefnu vinnuverndarvikunnar þann 20. október nk. en hún verður auglýst nánar þegar nær dregur.

Ef spurningar vakna varðandi erindi bréfsins er velkomið að hafa samband við skrifstofur Vinnueftirlitsins, sjá nánar á heimasíðunni www.vinnueftirlit.is.