Skip to main content
VMF

Viðbrögð ASÍ við úrræðum stjórnvalda vegna Covid-19

By maí 3, 2021júlí 12th, 2021No Comments

Ríkisstjórnin kynnti ný og framlengd úrræði sem er ætlað að mæta afleiðingum heimsfaraldursins. Þar eru einkum þrjár aðgerðir sem snerta atvinnuleitendur sem ASÍ styður en áréttar að því fer fjarri að þær gangi nógu langt til að koma til móts við þann vanda sem blasir við á vinnumarkaði og utan hans.

Ríkisstjórnin kynnti ný og framlengd úrræði sem er ætlað að mæta afleiðingum heimsfaraldursins. Þar eru einkum þrjár aðgerðir sem snerta atvinnuleitendur sem ASÍ styður en áréttar að því fer fjarri að þær gangi nógu langt til að koma til móts við þann vanda sem blasir við á vinnumarkaði og utan hans. 

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að fyrirtæki fái styrk til að endurráða starfsfólk á hlutabótum í fyrra starfshlutfall. ASÍ telur mikilvægt að ráðningasamband viðhaldist og að fullu ráðningasambandi sé komið á svo fljótt sem verða má í tilvikum launafólks sem er á hlutabótaleið. Halda verður áfram með hlutabótaleiðina eins lengi og hennar er þörf, ella kunni að vera hætta á frekari uppsögnum. 

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að sá hópur sem hefur verið atvinnulaus í fjórtán mánuði eða lengur fái greiddan styrk sem nemur að hámarki 100 þúsund krónum. Hér er um að ræða þann hóp sem missti vinnuna áður en tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta var hækkað úr þremur mánuðum í sex. ASÍ fer fram á að  þessi hópur njóti sömu réttinda og aðrir til sex mánaða tekjutengdra bóta enda duga 100 þúsund krónur skammt í því samhengi.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að framlengja lög um að tekjutengdar atvinnuleysisbætur greiðist í sex mánuði í stað þriggja. ASÍ hefur sett fram kröfu þar að lútandi en áréttar þá afstöðu að miða eigi við sex mánuði til frambúðar, ekki eingöngu tímabundið. 

Aðrar aðgerðir lúta meðal annars að framlengingu og útvíkkun á úrræðum sem fyrirtæki hafa notið, nýrri ferðagjöf og stofnun ferðatryggingasjóðs. Einnig er gert ráð fyrir að sérstakur barnabótaauki verið greiddur til þeirra sem fá tekjutengdar bætur og er það skynsamleg sértæk ráðstöfun sem nýtist þar sem helst skyldi. Þá eru möguleikar á úttekt séreignarsparnaðar framlengdir. ASÍ fagnar auknu fjárframlagi til geðheilbrigðismála til barna og ungmenna. Mikilvægt er að sá stuðningur nái líka til ungs fólks á aldrinum 15-24 ára en ASÍ hefur þungar áhyggjur af auknu atvinnuleysi, óvirkni og heilsubresti í þeim aldurshópi. 

ASÍ áréttar þá afstöðu sína að stjórnvöld sýni úthald með aðgerðum sínum við þessar aðstæður. Ef dregið er úr of snemma getur það orðið til þess að dýpka kreppuna og auka á skaðsemi hennar. Þá kallar ASÍ eftir auknum þunga í atvinnusköpun, en allar áætlanir gera ráð fyrir að glíman við atvinnuleysi verði lengri en almennt hefur verið á Íslandi. Slík framtíðarsýn er ekki viðunandi.