Skip to main content
VMF

Verjið afkomuna

By maí 26, 2021No Comments

Pistill forseta ASÍ

Í dag kynntu stjórnvöld nýjar og framlengdar aðgerðir vegna Covid-kreppunnar. Faraldurinn hefur sannanlega dregist á langinn og við þessar aðstæður er mikilvægt að sýna úthald.

Í dag kynntu stjórnvöld nýjar og framlengdar aðgerðir vegna Covid-kreppunnar. Faraldurinn hefur sannanlega dregist á langinn og við þessar aðstæður er mikilvægt að sýna úthald. Ef ríkið dregur of snemma úr aðgerðum sínum til stuðnings fólki og fyrirtækjum er hætt við að það dýpki kreppuna. Það er enn langt í land að atvinnuleysistryggingakerfið okkar virki sem skildi í þeim hörmungum sem nú ganga yfir.

Enn og aftur þarf að vinda ofan af þeirri hugmynd að hækkun ráðstöfunartekna búi til verðbólgu ein og sér. Þvert á móti eru það tekjur fólks sem halda hagkerfinu hér gangandi eins og hægt er. Þarna hefur orðið viðsnúningur í viðhorfum frá síðustu kreppu og hver alþjóðastofnunin á fætur annarri sendir ríkisstjórnum skýr skilaboð: „Verjið afkomuna!“. Vitandi að það er ekki einungis góð hagfræði heldur rétt, mannúðlegt og sanngjarnt, höfum við lagt ofuráherslu á að hækka bætur og verja afkomu. Það eru því vonbrigði að tekjutengda tímabil atvinnuleysisbóta sé ekki lengt enn frekar og bætur hækkaðar þrátt fyrir að allar spár geri ráð fyrir áframhaldandi atvinnuleysi. Ljósi punkturinn í aðgerðunum er áhersla á að skapa störf og höfum við ekki legið á liði okkar að hvetja stjórnvöld til dáða þar en það þarf að gera þetta jafnhliða; búa til ný störf og styrkja bótakerfið.

Á morgun er baráttudagur verkalýðsins og annað árið í röð getum við ekki komið saman í kröfugöngur og hitt félagana í kaffi til að brýna okkur til áframhaldandi verka. Við bregðumst við þessu eins og í fyrra með því að bjóða upp á baráttufund í bland við skemmtidagskrá í samstarfi við RÚV á laugardagskvöld.

Yfirskrift dagsins er „Það er nóg til“ og það má til sanns vegar færa. Við erum mjög langt frá því að ná sátt í þessu samfélagi um skiptingu gæðanna og eftir því sem auðfólki vex fiskur um hrygg dýpkar gjáin og við verðum fjær sáttinni. Um þetta fjalla ég í ávarpi í tilefni morgundagsins sem finna má í nýútkomnu vefritinu vinnan.is

Góða helgi og gleðilegan baráttudag á morgun, 1. maí.

Drífa