Skip to main content

Verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands (ASÍ) kannaði verð á 33 algengum nýjum námsbókum fyrir framhaldsskóla fimmtudaginn 10.ágúst sl. Þá var einnig skoðað hversu mikið verð nýrra bóka hafði hækkað milli ára.

Verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands (ASÍ) kannaði verð á 33 algengum nýjum námsbókum fyrir framhaldsskóla fimmtudaginn 10.ágúst sl. Þá var einnig kannað hversu mikið verð nýrra bóka hafði hækkað milli ára.

Iðnú oftast með lægsta verðið á nýjum námsbókum fyrir framhaldsskóla

Iðnú í Brautarholti var oftast með lægsta verðið og Penninn-Eymundsson oftast með hæsta verðið þegar Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð skólabókanna en misjafnt var hversu margir þeirra titla sem skoðaðir voru fengust í verslununum. Í A4 Skeifunni fengust allir 33 titlarnir en í Máli og Menningu Laugarvegi einungis 13 þeirra.

Verðmunur allt að 85%
Lægsta verðið var oftast hjá Iðnú í Brautarholti eða á 21 titli af 33, þar á eftir kom Forlagið Fiskislóð með lægsta verðið á 9 titlum. Penninn-Eymundsson Kringlunni var oftast með hæsta verðið í könnuninni eða á 14 titlum af 33 og Mál og Menning Laugarvegi í 10 tilfellum. Af þeim nýju bókum sem skoðaðar voru átti A4 Skeifunni alla 33 titlana eins og áður segir og Forlagið Fiskislóð 30, en fæstir titlanna voru fáanlegir hjá Máli og Menningu Laugarvegi eða 13 af 33.
Mestur var verðmunurinn í könnuninni á „Stjórnmálafræði“, sem var dýrust hjá Pennanum-Eymundsson Kringlunni 7.399 kr en ódýrust 3.990 kr hjá Heimkaup.is, það gerir 3.409 kr. verðmun eða 85%. Einnig munaði miklu á verði á „Þýska fyrir þig 1“, vinnubók, sem var á 2.542 kr hjá Iðnú en 4.290 kr hjá Máli og Menningu Laugarvegi, sem er 1.748 kr verðmunur eða 69%.

Sjá nánari niðurstöður í töflu

Nánari verðsamanburð má gera hér

Námsmenn ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum getur breyst ört hjá verslunum við upphaf skólaárs. Rétt er að geta þess að 15% afsláttur var á nýjum bókum hjá Iðnú í Brautarholti þegar mælingin fór fram. Samkvæmt auglýsingu sem liggur frammi í versluninni verður þessi afsláttur veittur til 15. september 2017.

Verð á nýjum námsbókum fyrir framhaldsskóla hækkar milli ára
Penninn-Eymundsson, Mál og Menning og A4 hafa hækkað verð á milli ára á flestum nýjum námsbókum sem fáanlegar voru í könnunum verðlagseftirlits ASÍ í ár og í fyrra. Bókabúðin Iðnú lækkar hins vegar verð á öllum titlum sem skoðaðir voru frá fyrra ári.

Hækkanir á nýjum námsbókum á milli ára allt að 97%
Penninn-Eymundsson hækkar námsbækur fyrir framhaldsskóla í flestum tilfellum um og yfir 65% milli ára og hjá A4 hækkar verðið í flestum tilfellum um 30-50%. Mest var verðhækkunin á „Almenn jarðfræði“ hjá A4 eða úr 4.199 kr. í fyrra í 8.289 kr. sem gerir hækkun um 4.090 kr. eða 97%. Næst mesta hækkunin var á „Bókfærsla 1“ hjá Pennanum-Eymundsson en sú bók hækkaði úr 2.909 kr. í 5.599 kr. eða um 2.690 kr. eða 92%.
Verðið lækkaði hins vegar hjá Bókabúðinni Iðnú um 15–25% á milli ára. Mesta verðlækkunin í samanburðinum var á „Lífeðlisfræði“ hjá Forlaginu Fiskislóð um 32%, sú bók lækkaði úr 8.590 kr. í 5.884 kr.
Borin voru saman verð á nýjum námsbókum fyrir framhaldsskóla í könnunum verðlagseftirlits ASÍ þann 16. ágúst 2016 og 10. ágúst 2017. Rétt er að árétta að tekin eru niður þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma og hafa tilboðsverð áhrif á samanburð. Penninn-Eymundsson og A4 voru með 25% afslátt af nýjum bókum þegar könnunin fór fram 2016 og Bókabúðin Iðnú með 15% þegar könnun fór fram 2017.

Nánari samanburð má sjá í meðfylgjandi töflu.

Í báðum könnunum var kannað verð í eftirtöldum verslunum: Pennanum-Eymundsson Kringlunni, A4 Skeifunni, Forlaginu Fiskislóð, Bókabúðinni Iðnú Brautarholti, Mál og Menningu Laugavegi og á Heimkaup.is.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Einnig má benda neytendum á að bókabúðirnar gætu verið með staðgreiðsluafslátt og jafnvel afslætti til meðlima.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.