Skip to main content

Geta breytingar á lífeyrissjóðakerfinu stuðlað að því að ungt fólk lendi í fátæktargildru? Þessari fullyrðingu var slegið upp í fyrirsögn í Fréttablaðinu 19. mars sl. og studd með þeim rökum að skylduiðgjald til lífeyrissjóða væri e.t.v. of hátt á sama tíma og ungt fólk væri að koma þaki yfir höfuðið og ala upp börn.

Geta breytingar á lífeyrissjóðakerfinu, þ.e. hækkun mótframlags atvinnurekenda úr 8 í 11,5%, stuðlað að því að ungt fólk lendi í fátæktargildru? Þessari fullyrðingu var slegið upp í fyrirsögn í Fréttablaðinu 19. mars sl. Var það stutt þeim rökum að skylduiðgjald til lífeyrissjóða væri e.t.v. of hátt á sama tíma og ungt fólk væri að koma þaki yfir höfuðið og ala upp börn.

Það má um margt taka undir áhyggjur af þröngri stöðu ungs fólks hér á landi. Birtist þetta m.a. í því að húsnæðismarkaðurinn er ungu fólki, sem ekki nýtur fjárhagslegs stuðnings frá foreldrum eða öðru venslafólki, nánast lokaður og öruggt húsnæði á ásættanlegu verði er vandfundið á leigumarkaði. Vinnudagurinn er langur og útgjöld barnafjölskyldna eru ærin. Þá hafa of fá störf orðið til í greinum sem laða til sín ungt og efnilegt fólk.

Í öllum þessum grundvallarþáttum hefur stefnumótun stjórnvalda hverju sinni afgerandi áhrif. Stjórnvöld geta með aðgerðum sínum mótað umgjörð húsnæðismarkaðarins þannig að allir hópar geti gengið að öruggu íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Stjórnvöld geta líka létt barnafólki róðurinn með því að nota jöfnunartæki skattkerfisins bæði til að létta skattbyrði af fjölskyldum á meðan heimilisreksturinn er hvað þyngstur og með því að niðurgreiða þjónustu við barnafólk. Áherslan í atvinnustefnu stjórnvalda ræður sömuleiðis miklu um það hverskonar störf verða til fyrir ungt fólk á vinnumarkaði. Á alla þessa þætti hefur efnahagsstefna og hagstjórn vitanlega veruleg áhrif og ræður miklu um það hvernig til tekst. Það má því margt gera til að treysta stöðu ungs fólks og tryggja ungum fjölskyldum tækifæri og góð uppeldiskilyrði fyrir börn sín.

Í upphafi skyldi endinn skoða
Að hverfa frá því að byggja upp lífeyriskerfi þar sem hver kynslóð safnar fyrir góðri afkomu sinni á efri árum verður tæpast talið skref í þá átt að treysta stöðu ungs fólks á vinnumarkaði og til húsnæðiskaupa. Lífeyriskerfi okkar mun sannanlega létta undir með ungu fólki hér á landi samanborið við jafnaldra þeirra í flestum vestrænum ríkjum þegar stóru eftirstríðsárgangarnir fara á eftirlaun á næstu árum. Þessar kynslóðir hér á landi eiga mun digrari lífeyrissjóði en jafnaldrar þeirra í mörgum öðrum löndum þar sem framfærsla sí stækkandi hóps eldri borgara mun leggjast þungt á fámennari kynslóðir yngra fólks á næstu árum.

En þó hér hafi vissulega verið byggt upp gott lífeyriskerfi sem mun gagnast okkur vel til framtíðar er verkefninu ekki lokið. Enn hafa opinberir starfsmenn mun betri lífeyrisréttindi en launafólk á almennum vinnumarkaði, auk þess sem krafa dagsins snýst ekki bara um að eldra fólk hafi í sig og á þegar starfsævinni lýkur, heldur vill það hafa fjárráð til að njóta lífsins og geta áfram verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Þess vegna var í kjarasamningum í upphafi árs samið um 3,5% hækkun á framlagi atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði til lífeyrissjóðanna á næstu tveimur árum.

Þótt vissulega megi segja að núverandi iðgjöld til lífeyrissjóða kunni að tryggja tekjuháum hópum með farsæla atvinnusögu fullnægjandi lífeyri munu þau ekki tryggja stórum hópum almenns launafólks ásættanlega afkomu á efri árum. Fyrir því eru nokkrar ástæður, þ.m.t.:
•Yngri kynslóðir koma síðar inn á vinnumarkaðinn en áður sem þýðir að þær þurfa að leggja meira fyrir til að safna nægum lífeyrisréttindum yfir starfsævina.
•Lífaldur fer stöðugt hækkandi og heilsa eldra fólks batnar. Það eykur kröfuna um góða afkomu eftir stafslok á vinnumarkaði.
•Hækkandi lífaldur gerir líka auknar kröfur um sveigjanleika í lífeyriskerfinu bæði til að mæta þeim sem eru í störfum sem erfitt er að sinna fram eftir aldri og þeim sem t.d. vilja geta stundað hálft starf samhliða lífeyristöku. Hækkun á iðgjaldi til lífeyrissjóðanna nú er einnig ætlað að svara þessu kalli um aukinn sveigjanleika.
•Þá má nefna m.t.t. þróunar vaxtastigs á mörkuðum á heimsvísu að óraunhæft er að ætla að raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða til lengri tíma litið verði áfram jafn góð og hún hefur verið um langt árabil.

Að byggja upp lífeyriskerfi af ábyrgð og myndugleika er ekki gert til höfuðs ungu fólki. Það er ábyrgðahluti gagnvart yngstu kynslóðunum, börnunum okkar, að sú kynslóð sem nú er á vinnumarkaði safni raunverulega fyrir sínum eftirlaunum, að öðrum kosti sendum við reikninginn af afkomu okkar á efri árum áfram til barnanna okkar. Höldum áfram að axla þá ábyrgð en notum tekjujafnandi aðgerðir í efnahags- velferðar- og skattamálum til að styðja við unga fólkið.