Skip to main content

Verð á matvöru hefur hækkað umtalsvert sl. 18 mánuði. Þegar bornar eru saman verðkannanir sem verðlagseftirlit ASÍ gerði þann 14. ágúst 2012 annars vegar og 25. febrúar 2014 hins vegar, koma í ljós talsverðar hækkanir í öllum vöruflokkum. Bornar voru saman 52 vörur í níu verslunum um land allt.

Verð á matvöru hefur hækkað umtalsvert sl. 18 mánuði. Þegar bornar eru saman verðkannanir sem verðlagseftirlit ASÍ gerði þann 14. ágúst 2012 annars vegar og 25. febrúar 2014 hins vegar, koma í ljós talsverðar hækkanir í öllum vöruflokkum. Bornar voru saman 52 vörur í níu verslunum um land allt.

Vöruúrval, samanburður og sveiflur
 Af þeim 52 vörum sem bornar eru saman átti verslunin Iceland til 41 og höfðu allar nema ein hækkað í verði á tímabilinu. Verslunin 10/11 sem átti aðeins til 24 vörur sem bornar eru saman í báðum mælingum, heldur óbreyttu verði á átta vörutegundum, lækkar verð á tveimur en 14 hækka í verði.

Það má sjá einstöku verðlækkanir hjá öllum verslunum. Nettó lækkaði verð í 16 tilvikum af 44, Fjarðarkaup í 12 tilvikum af 49 og Nóatún í 12 tilvikum af 36.

Benda má á að Brazzi eplasafi hefur yfirleitt lækkað í verði um 5-18% nema hjá Samkaupum – Úrvali, 10/11 og Krónunni þar sem hann er á sama verði í báðum mælingum. Hjá Iceland hefur Brazzi hins vegar hækkað um 16% á tímabilinu.

Mestar sveiflur í könnunum verðlagseftirlitsins eru á grænmeti og ávöxtum, bæði til hækkunar og lækkunar. Vatnsmelóna lækkaði þannig um 9% í verði hjá Samkaup-Úrvali þar sem hún var ódýrust en hækkaði verulega hjá flestum öðrum, mest hjá Iceland um 305% en þar var verðið á vatnsmelónum hæst. Appelsínur lækkuðu um 36% í Nettó þar sem þær voru ódýrastar en hækkuðu um 25% hjá 10/11 þar sem appelsínurnar voru dýrastar.

Mjólkurvörur hækka í verði
 Verð á mjólkurvörum hefur hækkað í öllum verslunum þrátt fyrir einstöku lækkanir en verð hefur hækkað að meðaltali um 5%. Sem dæmi má nefna að verð á AB mjólk hefur hækkað um 13% hjá Iceland, 7% hjá Bónus og Krónunni, 6% hjá 10/11, 5% hjá Nóatúni og Hagkaupum, 4% hjá Nettó og um 3% hjá Fjarðarkaupum og Samkaupum-Úrval. MS rækjusmurostur hefur hækkað um 14% hjá Iceland, 6% hjá Bónus og Krónunni, 4% hjá Nettó og Fjarðarkaupum, 3% hjá Nóatúni, 2% hjá Samkaupum–Úrvali, er á sama verði hjá 10/11 en hefur lækkað í verði hjá Hagkaupum um 7%.

Sem dæmi um aðra vinsæla matvöru má nefna að SS pylsur hafa hækkað um 14% hjá Iceland, 10% hjá Krónunni, 8% hjá Bónus, 7% hjá Samkaupum – Úrval, 6% hjá Nettó, 4% hjá Fjarðarkaupum, 2% hjá 10/11 og um 1% hjá Hagkaupum. Einnig má benda á að ódýrasta kílóverð af sykri hefur hækkað töluvert á þessu tímabili en mesta hækkunin er 119% hjá Iceland, 96% hjá Krónunni, 80% hjá Nóatúni, 59% hjá Samkaupum – Úrval, 54% hjá Nettó, 42% hjá Fjarðarkaupum, 34% hjá Hagkaupum, 28% hjá Bónus en er á sama verði hjá 10/11.    

Nánari samanburð milli verslana og tímabili má sjá á heimasíðu ASÍ.

Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miða við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ frá 14. ágúst 2012 og 25. febrúar 2014. Rétt er að árétta að mæld eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma í verslunni og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar einstakra vara.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Iceland, Samkaupum – Úrval, Hagkaupum 10/11 og Nóatúni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.