Skip to main content

Allt að 51% munur er á kostnaði foreldra við hádegisverð og síðdegisvistun grunnskólabarna meðal stærstu sveitarfélaga landsins samkvæmt nýrri samantekt verðlagseftirlits ASÍ.

Allt að 51% munur er á kostnaði foreldra við hádegisverð og síðdegisvistun grunnskólabarna meðal stærstu sveitarfélaga landsins samkvæmt nýrri samantekt verðlagseftirlits ASÍ. Gjald fyrir hádegisverð, 3 tíma síðdegisvistun og hressingu fyrir barn í neðri bekkjum grunnskólans er hæst í Garðabæ kr. 36.484 á mánuði en lægst í Sveitarfélaginu Skagafirði kr. 24.234. Heildarkostnaður foreldra vegna þessarar þjónustu hefur hækkað í öllum 15 sveitarfélögunum sem til skoðunar eru undanfarið ár. Mesta hækkunin milli ára er í Reykjavík, þar sem heildarkostnaður vegna þessarar þjónustu hækkar úr kr. 23.530 í kr. 26.100 á mánuði eða um 11% sem er að mestu tilkomið vegna hækkunar á hádegisverði. Minnsta hækkunin milli ára er hjá Ísafjarðarbæ þar sem heildarkostnaður foreldra fer úr 31.267 kr. á mánuði í kr. 31.603 kr. sem er 1% hækkun.

 

Samantektin nær til 15 fjölmennustu sveitarfélaga landsins. Uppbygging gjaldskráa sveitarfélaganna er mjög mismunandi, en í þessum samanburði er miðað við þriggja tíma dagleg vistun eftir skóla ásamt síðdegishressingu og hádegismat í 21 dag á mánuði.  Ekki er tekið tillit til seðilgjalda eða annarra innheimtugjalda sem kunna að leggjast ofan á gjöldin og eru í sumum tilvikum innheimt í tvennu lagi. Í sumum sveitarfélögum er einnig í boði ávaxtastund og mjólkuráskrift á skólatíma sem er ekki er hluti af samanburðinum. 

Allt að 41% verðmunur á hádegisverði
Ef eingöngu er skoðuð gjaldskrá fyrir hádegisverð sem í boði er fyrir grunnskólabörn á öllu aldri má sjá að allt að 41% verðmunur milli sveitarfélaga. Hæsta verðið er á Ísafirði þar sem máltíðin kostar 492 kr. eða 10.332 krónur á mánuði ef gert er ráð fyrir 21. vikum degi í mánuði. Lægsta verðið er hins vegar í Sveitarfélaginu Árborg, 349 kr. máltíðin eða 7.329 krónur á mánuði.

Hlutfallslega hækkar verð á hádegismat grunnskólabarna mest í Reykjavík milli ára eða um 30%, máltíðin fór úr 338 kr. í 441 kr. Í Reykjanesbæ nemur hækkunin 10% en þar hækkar máltíðin úr 350 kr. í 385 kr. Í Hafnarfirði hækkar máltíðin um ríflega 8% milli ára, í Sveitarfélaginu Skagafirði um 6% og í Kópavogi, Mosfellsbæ og á Akranesi um 4%. Akureyri og Vestmannaeyjar eru einu sveitarfélögin þar sem gjald fyrir hádegisverð grunnskólabarna er óbreytt milli ára. 

Systkinaafslættir misjafnir
Systkinaafslættir eru misjafnir eftir sveitarfélögum. Afslátturinn fyrir annað barn er frá 25% upp í 75% og afslátturinn fyrir þriðja barnið er frá 25% upp í 100%. Aðeins er veittur afsláttur af skóladagvistun ekki fæði.

Samanburðartafla á kostnaði við skólavistun og hádegismat.

Mjög misjafnt er á milli sveitarfélaga hvernig gjaldskráin fyrir þjónustu við grunnskólabörn er uppbyggð. Til dæmis er hámarksgjald, mánaðargjald, aukagjald fyrir gæslu á starfsdögum, aukagjald fyrir að aðstoð við heimanám  og skráningargjald. Einnig er hádegismatur seldur í formi annaráskriftar, mánaðargjalds, klippikorts eða sem stakar máltíðir. Til að einfalda samanburð milli sveitarfélagana miðar verðlagseftirlitið samanburð sinn við 21 virkan dag í mánuði, vistun í þrjá tíma á dag ásamt hressingu í síðdegisvistinni.

Einungis er um verðsamanburð að ræða, ekki er lagt mat á gæði þjónustunnar.

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrám sveitarfélaga fyrir ofangreinda þjónustu hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins milli janúar 2016 og janúar 2017.

Sjá nánar á heimasíðu ASÍ.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.