Skip to main content

Alþýðusambandið hefur á undanförnum árum ítrekað gagnrýnt þróun skatt- og tilfærslukerfanna. Ástæðan er einföld, þær breytingar sem gerðar hafa verið hafa ekki miðað að því að bæta stöðu hinna tekjulægri.

Alþýðusambandið hefur á undanförnum árum ítrekað gagnrýnt þróun skatt- og tilfærslukerfanna. Ástæðan er einföld, þær breytingar sem gerðar hafa verið hafa ekki miðað að því að bæta stöðu hinna tekjulægri. Í skýrslu Hagdeildar sem gefin var út haustið 2017 var skattbyrði launafólks rakin frá árinu 1998. Niðurstaða skýrslunnar var aukin skattbyrði launafólks á síðustu áratugum og hefur þróunin komið verst niður á tekjulægri hópum[1] sökum þróunar skattkerfis og veikingar tilfærslukerfanna.

Skatta og tilfærslukerfi gegna lykilhlutverki í að draga úr ójöfnuði en líkt og OECD hefur bent á, „Tax and transfer systems play a key role in lowering overall income inequality. Three quarters of the average reduction in inequality they achieve across the OECD is due to transfers“. Veiking tilfærslukerfanna eykur því að óbreyttu auka ójöfnuð tekna.

Tillögur ASÍ í skattamálum miða að því að leiðrétta þessa þróun með einföldum aðgerðum.

Jöfnunarhlutverk tekjuskattkerfisins verði styrkt. 

  • Með fjölgun þrepa verður hægt að hækka skattleysismörk og draga úr jaðarsköttum hinna tekjulægri.
  • Hátekjuþrep væri miðað við ~5% tekjuhæstu (~Yfir 1,1 milljón á mánuði).
  • Breytingarnar myndu auka ráðstöfunartekjur mest hjá einstaklingum sem hafa laun undir 500 þúsund á mánuði og halda skattbyrði óbreyttri á efri millitekjur.
  • Breytingar hefðu jákvæð eða hlutlaus áhrif á 95% einstaklinga á vinnumarkaði.

Barnabótakerfið verði eflt til muna þannig að það styðji við meginþorra barnafólks en ekki einungis hinum allra tekjulægstu.

  • Dregið verði verulega úr tekjuskerðingum og tekjuskerðingamörk fylgi launaþróun.
  • Stuðningur nýtist fleirum en hinum allra tekjulægstu enda glíma ungar barnafjölskyldur í auknum mæli við háa kostnað við daggæslu, leiksskólagjöld og frístund.

Endurreisa þarf húsnæðisstuðningskerfin. 

  • Húsnæðiskostnaður og þá sérstaklega kostnaður leigjenda hefur dregið úr kjarabótum tekjulágra á undanförnum árum.

Fjármálaráðherra hefur haldið því fram í gagnrýni sinni á tillögur ASÍ um breytingar á skattkerfinu að þær muni leiða til þess að skattbyrði hækki á meðaltekjur og jaðarskattar aukist. Þessi ummæli ráðherrans benda til þess að hann hafi ekki kynnt sér tillögurnar nægilega vel og því full ástæða til að leiðrétta þennan misskilning. Það er rangt hjá fjármálaráðherra að tillögur ASÍ leiði til hækkunar á skattbyrði meðaltekjufólks. Þvert á móti gera tillögur ASÍ ráð fyrir að skattbyrði 95% vinnandi fólks lækki eða haldist óbreytt en tekjuhæstu 5% munu hins vegar greiða hærri skatta en nú er enda skattbyrði þeirra tekjuhæstu sú lægsta á Íslandi af Norðurlöndunum.

Þannig munu tillögurnar auka mest ráðstöfunartekjur þeirra sem hafa laun undir 500.000 krónum á mánuði, skattbyrði í efri millitekjum verður óbreytt en eykst hjá þeim allra tekjuhæstu. Þetta köllum við að nýta tekjuskattskerfið sem raunverulegt jöfnunartæki. Áhyggjur fjármálaráðherrans af auknum jaðarsköttum eru einnig óþarfar því tillögurnar gera beinlínis ráð fyrir því að jaðarskattar hinna tekjulægri lækki.