Skip to main content

Fjárhæð skaðabóta vegna varanlegrar örorku í kjölfar vinnuslysa og annarra slysa miðast við meðalatvinnutekjur tjónþola þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón verður.
Breyttar aðstæður, svo sem atvinnuleysi eða nám, geta orðið til þess að tekjur á þessu viðmiðunartímabili gefi ekki rétta mynd af tekjuöflun til framtíðar.

Fjárhæð skaðabóta vegna varanlegrar örorku í kjölfar vinnuslysa og annarra slysa miðast við meðalatvinnutekjur tjónþola þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón verður. Margt getur orðið til þess að tekjur á þessu viðmiðunartímabili gefi ekki rétta mynd af tekjuöflun til framtíðar.

Þetta getur m.a. átt við ef launamaður hefur verið atvinnulaus hluta tímabilsins eða farið í nám eins og á við um þúsundir launamanna eftir hrun. Samkvæmt nýjum dómi Hæstaréttar þurfa skaðabætur ekki að miðast við slík afbrigðileg tímabil og í þessum dómi voru skaðabætur þrefaldaðar miðað við tillögu tryggingafélags um uppgjör.

7.gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 mælir fyrir um þriggja ára viðmiðunartímabil vegna skaðabóta fyrir varanlega örorku en geymir jafnframt heimild til þess að víkja frá því ef óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Þann 26.2 sl. féll dómur í Hæstarétti, HRD 482/2014, þar sem deilt var um það hvort víkja ætti frá viðmiðun við þrjú síðustu almanaksárin fyrir slys. 

Málið varðaði 35 ára launamann sem varð fyrir slysi í mars 2011. Hann hafði verið starfandi á vinnumarkaði frá 16 ára aldri þar til hann byrjaði í námi árið 2009. Mestan hluta starfsævinnar var hann til sjós eða frá 1997 til 2007. Þá ákvað hann vegna breyttra heimilisaðstæðna að fara í land. Á árinu 2008 var hann í fæðingarorlofi og vann við sölumennsku í fimm mánuði, en var sagt upp störfum í hruninu haustið 2008 líkt og þúsundum annarra. Hann var á atvinnuleysisbótum um skamma hríð. Árið 2009 fór maðurinn í nám og var á annarri önn í laganámi er slysið varð. Tryggingafélagið vildi miða tekjur hans við árin 2010, 2009 og 2008 en 2008 vann hann aðeins í fimm mánuði og síðari tvö árin var hann við nám. Þessu vildi tjónþolinn ekki una og höfðaði mál á hendur tryggingafélaginu og taldi sig eiga rétt á þrefalt hærri skaðabótum sem miða ætti við þær tekjur sem hann hafði haft vegna atvinnuþátttöku á árinu 2008.

Í dómi Hæstaréttar segir: “Samkvæmt yfirliti sem fyrir liggur um tekjur stefnda frá árinu 1991 til 2007 hafði hann að meðaltali 3.600.000 króna hærri árslaun en lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eða útreiknaðar meðaltekjur samkvæmt varakröfum hans. Þegar litið er til atvinnusögu stefnda og tekjuöflunar hans á því tímabili verður ekki talið að tjón hans sé að fullu bætt með þeim bótum sem hann hefur þegar fengið greiddar. Telur dómurinn að tekjur þær sem stefndi miðar við í aðalkröfu sinni [atvinnutekjur 2008] gefi réttari mynd af framtíðartekjum stefnda en lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga … “

Þessi dómur er þörf áminning til alls launafólks sem verður fyrir alvarlegum slysum að kanna réttarstöðu sína vel og leita aðstoðar lögmanna.