Skip to main content

Föstudagspistill forseta ASÍ

Það er undarlegt að sitja undir þeim málflutningi að hár launakostnaður á Íslandi stefni fyrirtækjum í voða, sérstaklega í ferðaþjónustunni. Hér eru vissulega há laun á heimsmælikvarða en það er líka dýrt að lifa eins og allir þekkja sem einhvern tíman hafa farið út í búð eða staðið undir húsnæðiskostnaði.

Það er undarlegt að sitja undir þeim málflutningi að hár launakostnaður á Íslandi stefni fyrirtækjum í voða, sérstaklega í ferðaþjónustunni. Hér eru vissulega há laun á heimsmælikvarða en það er líka dýrt að lifa eins og allir þekkja sem einhvern tíman hafa farið út í búð eða staðið undir húsnæðiskostnaði. En þegar atvinnurekendur gagnrýna há laun liggur í loftinu að þau eigi að vera lægri, undirliggjandi er frekjuleg krafa um að fólk eigi að komast af með minna. Sama er uppi á teningnum þegar Íslendingar kvarta yfir háu verði á vöru og þjónustu. Nýjasta dæmið í vikunni var það sem einhverjir telja háan leigubílakostnað. Ef leigubílstjórar væru að maka krókinn langt umfram annað vinnandi fólk á Íslandi myndi ég skilja gagnrýnina, en svo er sannarlega ekki. Við búum við góð lífsgæði og þau kosta!
Við eigum að vera stolt af okkar lífsgæðum og gera betur, eins og lönd sem eru fremst í flokki. Þau hafa aldrei sætt sig við að vera góð í alþjóðlegum samanburði heldur stefnt hærra. Við markaðssetjum okkur gagnvart túristum sem sjálfbært land sem býður upp á sjálfbærar ferðir. Í því hlýtur að felast að greiða líka laun sem má lifa af, góðar vinnuaðstæður og skynsaman vinnutíma. Annars fer sjálfbærnin fyrir lítið. Hluti af því að vera stolt af landinu okkar og samfélagi er því að greiða laun yfir kjarasamningum, uppræta launaþjófnað, tryggja jafnrétti og jöfnuð og sterka velferð fyrir alla. Það á einfaldlega að vera hluti af því sem við bjóðum gestum uppá.
Leiðsögumenn sem ég hef rætt við telja ferðamenn ekki síður heillaða af samfélagslegum áherslum en náttúru undrum. Stöndum undir þeirri hrifningu!
Njótið helgarinnar,
Drífa