Skip to main content

Föstudagspistill Drífu Snædal, forseta ASÍ

Að borga skatta er gjaldið fyrir að búa í siðmenntuðu velferðarsamfélagi. Að heimta einföldun á skattkerfinu er oftast dulbúin leið til að koma í veg fyrir jöfnuð segir Drífa Snædal í föstudagspistli sínum.

Að borga skatta er gjaldið fyrir að búa í siðmenntuðu velferðarsamfélagi. Að heimta einföldun á skattkerfinu er oftast dulbúin leið til að koma í veg fyrir jöfnuð. Skattkerfi þarf ekki að vera einfalt en það þarf að virka til að afla ríkinu tekna og til að dreifa byrðunum. Þau sem bera meira úr býtum eiga eðlilega að greiða meira í samneysluna.

Við viljum aðstoða fólk á því æviskeiði þegar það er að koma sér þaki yfir höfuðið og ala upp börn. Það er tvennt ólíkt að vera með 600 þúsund kr. í mánaðartekjur ef þú ert með þunga greiðslubyrði og að greiða leikskóla- og æfingagjöld fyrir börn, eða ef þú hefur bara fyrir sjálfum þér að sjá. Þess vegna eru barnabætur og húsnæðisbætur mikilvægur liður í að jafna kjörin og tryggja að börn búi við sæmilega svipuð skilyrði.

Ef við aukum misskiptinguna þannig að sum börn geta tekið þátt í félagsstarfi en önnur ekki og sum búi með foreldrum í einu herbergi en önnur í risahúsi erum við að búa til tröllvaxin vandamál til framtíðar. Þess vegna eru skattamál eitt af stóru málunum, af því það er ekkert kerfi betur til þess fallið að jafna möguleika fólks, ekki síst barna.

Fólk á að vera stolt af því að greiða skatta og gera það með bros á vör. Það er ekkert fyrirlitlegra en fólk sem kemur sér hjá því að greiða til samneyslunnar; það er að svipta okkur jöfnuði og börnin tækifærum.

Þess vegna er ég stolt af því að ASÍ kynnti í vikunni skattastefnu sem byggir á jöfnuði og sanngirni. Ég hlakka til að fylgja stefnunni eftir.

Góða helgi,
 Drífa