Skip to main content

Föstudagspistill forseta ASÍ

Rétta leiðin úr þessari kreppu er að styrkja framfærslu almennings, tryggja húsnæðisöryggi og lífsgæði til framtíðar. Þetta er ekki tímapunkturinn til að skera niður, skerða lífskjör, selja ríkiseignir eða draga úr styrk innviða.

Rétta leiðin úr þessari kreppu er að styrkja framfærslu almennings, tryggja húsnæðisöryggi og lífsgæði til framtíðar. Þetta er ekki tímapunkturinn til að skera niður, skerða lífskjör, selja ríkiseignir eða draga úr styrk innviða. Þessi skilaboð er að finna í áherslum Alþýðusambandsins sem kynntar voru í gær undir heitinu: Rétta leiðin – frá kreppu til lífsgæða og öryggis fyrir okkur öll. Það römmum við inn stefnuna til skemmri og lengri tíma enda erum við í þeirri stöðu núna að ákveða hvernig samfélag við viljum reisa eftir það áfall sem veiran hefur valdið efnahagnum og atvinnulífinu.

Ísland nýtur þess nú að vera fyrirmynd annarra þjóða í heilsuvörnum. Við skulum líka vera fyrirmynd annarra þjóða í endurreisninni þar sem ákvarðanir eru teknar fyrir fjöldann en ekki hina fáu. Það kostar baráttu við sérhagsmunaöfl og þar þurfa almannaheillasamtök að leggjast á eitt. Niðurstaða þessarar kreppu má ekki verða brunaútsala á ríkiseignum eða að almenningi sé gert að herða sultarólina – þá verður kreppan dýpri og erfiðari en hún þarf að vera.

Við skulum byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf en verið hefur til að verja okkur betur fyrir áföllum framtíðar. Sú vegferð að treysta atvinnuuppbyggingu með aukinn matvælaframleiðslu, nýsköpun, tækni og grænum störfum er orðin aðkallandi og við þurfum menntun sem styður við þá uppbyggingu. Við verðum að koma í veg fyrir að kreppan auki kulnun og örorku með því að flýta styttingu vinnuvikunnar og byrja á þeim stéttum sem sinna líkamlega og andlega erfiðum störfum á lægstu laununum.

Treystum réttindi á vinnumarkaði og aukum lífsgæði og öryggi fyrir fjöldann en ekki fáa. Verum saman á réttu leiðinni.

Góða helgi,
Drífa