Skip to main content

ASÍ boðaði til blaðamannafundar í dag kl. 14 í Gerðarsafni í Kópavogi þar sem kynntar voru hugmyndir Alþýðusambandsins um réttu leiðina út úr kreppunni.

ASÍ boðaði til blaðamannafundar í dag kl. 14 í Gerðarsafni í Kópavogi þar sem kynntar voru hugmyndir Alþýðusambandsins um réttu leiðina út úr kreppunni. Drífa Snædal, forseti ASÍ og Kristján Þórður Snæbjarnarson, 1. varaforseti ASÍ, kynntu framtíðarsýn ASÍ.

Á tímum kreppu og allsherjar samdráttar, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum, þarf að vinna eftir skýrri framtíðarsýn. Alþýðusamband Íslands hvetur stjórnvöld og þjóðina alla til samstöðu um aðgerðir til að marka veginn frá kreppu til lífsgæða fyrir okkur öll. Stokkum spilin. Höfnum sérhagsmunum, eflum grunnstoðirnar og setjum fólk í öndvegi.

Alþýðusamband Íslands leggur hér fram framtíðarsýn um uppbyggingu Íslands undir yfirskriftinni Rétta leiðin – frá kreppu til lífsgæða og öryggis fyrir okkur öll. Tillögurnar eru í takti við stefnu alþjóðlegu verkalýðshreyfingarinnar um réttlát umskipti (e. Just Transition) og sækja í alþjóðlega umræðu um grænan samfélagssáttmála (e. Green New Deal). Unnið er eftir viðmiðum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um að atvinnusköpun skuli vera í fyrirrúmi við aðgerðir gegn kreppunni. 

Lagðar eru fram metnaðarfullar tillögur um að skapa atvinnu á nokkrum tilteknum sviðum sem eru til þess fallin að byggja fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf þar sem allir sem vilja geta fengið störf við hæfi. Sett er fram skýr framtíðarsýn um framfærslutryggingu, traust húsnæði, öfluga innviði og gjaldfrjálsa grunnþjónustu en með þeim hætti býr Ísland sig undir fyrirsjáanlegar breytingar á atvinnu- og lifnaðarháttum og tryggir að þær verði ekki til að auka á ójöfnuð og fátækt. Til þess þarf vinnumarkaðurinn jafnframt að byggja á traustum ráðningarsamböndum, skipulagðri verkalýðshreyfingu og kjarasamningum, auk þess að styðja gott samspil vinnu, fjölskyldulífs og frístunda. 

Drífa Snædal, forseti ASÍ: 
„Við vitum nú þegar að hagkerfið og vinnumarkaðurinn sem tekur við eftir Covid-kreppuna mun ekki vera eins og áður. Þetta er því ekki endurreisn í eiginlegum skilningi, heldur uppbygging til framtíðar. ASÍ stígur nú fram til að leiða stefnu fyrir þá uppbyggingu og við ætlum okkur að tryggja að hún verði í þágu almennings, ekki sérhagsmuna.“ 

Nánari útfærslur er að finna í þessum bæklingi

Skjákynning frá fréttamannafundinum