Skip to main content

Föstudagspistill forseta ASÍ

Í liðinni viku hafa stóru málin verið til umfjöllunar í hreyfingunni og er farið að sjá til lands í mörgum umbótamálum sem lögð var áhersla á í aðdraganda kjarasamninganna í vor þó vinnan sækist hægar en æskilegt væri.

Í liðinni viku hafa stóru málin verið til umfjöllunar í hreyfingunni og er farið að sjá til lands í mörgum umbótamálum sem lögð var áhersla á í aðdraganda kjarasamninganna í vor þó vinnan sækist hægar en æskilegt væri. Á miðstjórnarfundi ASÍ á miðvikudaginn voru til umfjöllunar lífeyrismál og húsnæðismál og ljóst að það þarf að vanda verulega til verka og gæta þess að breytinga sem standa fyrir dyrum verði raunveruleg framfaraskref fyrir allan almenning. Inn í lífeyrismálin fléttast að sjálfsögðu almannatryggingar og því verður þetta alltaf umræða um grundvallaratriði. Hvernig nýtist samtrygging í gegnum lífeyrissjóði og almannatryggingar, hverjir njóta og hverjir borga. Þó að verkalýðshreyfingin sé samtök vinnandi fólks þá er ljóst að samfélagið allt er undir og oft eru skilin á milli þess að vera á vinnumarkaði eða ekki frekar fljótandi. Það er því eitt af stærstu verkefnum samfélagsins í dag að tryggja að fólk sem missir starfsgetuna sé ekki dæmt til fátæktar. Ástandið verður augljóst og átakanlegt rétt fyrir jól þar sem öryrkjar eru meðal helstu skjólstæðinga hjálparstofnana, hópur sem oft og tíðum er ósýnilegur á öðrum tímum.

Verkefni hreyfingarinnar eru iðulega að standa vörð um þá sem verst hafa kjörin og ljá þeim rödd sem hafa ekki aðgang að hljóðnemanum stöðu sinnar vegna. Einn þessara hópa eru erlendir starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði og í vikunni féll dómur þar sem sum ummæli sérfræðings á skrifstofu ASÍ voru dæmd dauð og ómerk en önnur ekki. Til að taka af allan vafa þá breytir þessi dómur engu í starfsemi okkar vinnustaðaeftirlits eða þeirri staðfestu starfsfólks og kjörinna fulltrúa hreyfingarinnar að enduróma veruleika okkar félaga og tala skýrt þeirra máli.

Njótið helgarinnar,
Drífa