Skip to main content

Félagið vill minna félagsmenn sína á nokkur atriði sem gott er að hafa í huga nú í desember og sem endranær.

Ágæti félagsmaður,

Skrifstofa 
Við viljum minna á að skrifstofa stéttarfélaganna í Skagafirði er staðsett í Borgarmýri 1 og þar er félagsmönnum veitt öll almenn þjónusta er tengist kjaramálum ásamt annarri þjónustu. Skrifstofan er opin frá kl. 8 – 16 alla virka daga. Síminn er 453 5433. Minnum líka á sameiginlega heimasíðu stéttarfélaganna www.stettarfelag.is

Umsókn um styrki og aðrar greiðslur  úr sjúkrasjóði og starfsmenntasjóði þurfa að hafa borist fyrir 20.dag hvers mánaðar til að fá afgreiðslu fyrir mánaðamót.
Vegna jóla viljum við benda á að umsóknir þurfa að hafa borist í síðasta lagi 12.desember til að hægt verði að afgreiða þær fyrir jól.

Desemberuppbót er kr. 73.600,- árið 2014.
Félagsmaður sem vinnur fullt starf fær því samtals 73.600 – sem greiðist eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember. Heimilt er með samkomulagi við starfsmann að uppgjörstímabil sé frá 1.des. til 30.nóv. ár hvert í stað almanaksárs.

Kjaramál – samningar
Kjarasamningar verða lausir nú um áramótin. Samningafundir hafa enn ekki hafist en ljóst er að miðað við þá samninga sem gerðir hafa verið á opinberum markaði síðastliðið ár þá krefjumst við töluverðar leiðréttingar á okkar samningum.  Félagsmenn innan aðildarfélaga ASÍ geta ekki borið einir ábyrgð á stöðuleikanum í þjóðfélaginu. Það er hins vegar ljóst að þeir samningar sem gerðir voru fyrir ári síðan hafa stuðlað að þeim stöðugleika sem hefur verið í þjóðfélaginu undanfarið ár, en samstaðan í öðrum samningum sem gerðir voru eftir þá var ekki til staðar.
Mikil óvissa ríkir varðandi komandi samninga og töluverðar líkur eru á átökum á vinnumarkaði á nýju ári. Aðildafélög ASÍ hafa ákveðið að bíða með að setjast að samningaborðinu þar til í janúar því þá verða boðaðar kostnaðarhækkanir hjá ríkinu og  sveitarfélögum komnar betur í ljós. Aðgerðir og efndir ríkisstjórnarinnar hafa heldur ekki verið til að bæta stöðuna og ekki hefur verið um neinar viðræður við stjórnvöld að ræða varðandi neinn af þeim liðum sem snerta félagsmenn okkar í fjárlagafrumvarpinu. Það er vert að geta þess að stjórn félagsins sendi frá sér yfirlýsingu vegna fjárlagafrumvarpsins 29.sept.síðastliðinn

„Stjórn Verslunarmannafélags Skagafjarðar mótmælir harðlega þeim skerðingum sem fram koma í fjárlagafrumvarpi 2015.  Þrátt fyrir að forystumenn ríkisstjórnarinnar haldi því fram að fjárlagafrumvarpið bæti hag heimila að meðaltali, þá er ljóst að það gildir ekki um tekjulægri hópa samfélagsins.
Stjórn Verslunarmannafélags Skagafjarðar gerir miklar athugasemdir við:

• Hækkun lægra þreps virðisaukaskatts úr 7% í 12%
• Skerðingu réttar til atvinnuleysisbóta
• Að ekki verði staðið við gefin fyrirheit um framlag til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs
• Skerðingu framlaga til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða
• Skert framlög til menntamála sem bitna m.a. annars mjög harkalega á Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra þrátt fyrir fögur orð á hátíðastundum um eflingu iðnmenntar í landinu og fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.
• Skert framlög til heilbrigðismála sem enn og aftur bitna m.a. á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki.
Stjórn Verslunarmannafélags Skagafjarðar skorar á ríkisstjórn Íslands að endurskoða framkomið fjárlagafrumvarp. Nú er kominn tími á að hlusta á fólkið í landinu.“

Niðurgreiðsla á gistingu
Stéttarfélögin hafa gert samning við ýmsa aðila varðandi gistingu. Bæði er um að ræða á höfuðborgarsvæðinu og eins á Akureyri og Eyjafjarðasvæðinu.
Allar nánari upplýsingar um þessa möguleika er að finna á heimasíðunni www.stettarfelag.is

Íbúðir okkar í Reykjavík
Við viljum minna á að sólarhringsleiga fyrir íbúðirnar í Reykjavík er 5.000 krónur og innifalið í því verði er lín.
Nú nýlega urðu þær breytingar að félögin seldu íbúð sína í Naustabryggju og keyptu aðra í staðinn í Sóltúni 30 sem er einu herbergi stærri. Endurnýjaður var ýmis húsbúnaður og keypt ný rúm. Þar eru því rúm fyrir 7 til gistingar í þremur svefnherbergjum.

Orlofshúsið í Varmahlíð
Sem fyrr minnum við einnig á orlofshúsið okkar í Varmahlíð sem er til útleigu allan ársins hring.

Starfsmenntastyrkir
Verslunarmannafélagið afgreiðir styrkumsóknir til Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks.  Sjóðurinn styrkir hin ýmsu námskeið, bæði starfstengd og tómstundanámskeið. Samþykktar hafa verið nýjar úthlutunarreglur Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks. Nýjar reglur eiga að gera félagsmönnum með lægri laun kleift að ávinna sér inn réttindi hraðar. Einnig er það von sjóðsins að nýju reglurnar hvetji félagsmenn til frekari þátttöku í símenntun.

Kynntu þér málið á www.starfsmennt.is

Að lokum óskar Verslunarmannafélag Skagafjarðar þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.