Skip to main content

Um þriðjungur dekkjaverkstæða neitaði þátttöku í könnun verðlagseftirlits ASÍ þegar kannað var verð á dekkjaskiptum fyrr í vikunni. Dæmi voru um að starfsmenn dekkjaverkstæðanna treystu sér ekki til að gefa upp verð, önnur verkstæði vísuðu starfsfólki verðlagseftirlitsins á dyr og brögð voru af því að þjónustuaðilar vísuðu verðtökufólki á annan stað til þess að fá uppgefið verð. Slíkt samræmist ekki þeim sjálfsagða rétti neytenda að fá skýrar og skilmerkilegar upplýsingar um verð vöru og þjónustu á sölustað.

Um þriðjungur dekkjaverkstæða neitaði þátttöku í könnun verðlagseftirlits ASÍ þegar kannað var verð á dekkjaskiptum fyrr í vikunni. Eftirfarandi aðilar voru ekki tilbúnir til þess að veita upplýsingar um verð á þeirri þjónustu sem þeir selja neytendum: N1, Dekkjahöllin, Nesdekk, Sólning, Barðinn, Klettur, Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs, Betra grip, Gúmmívinnustofan SP dekk, Bílkó, Kraftbílar og Hjólbarðaþjónusta Magnúsar.

Dæmi voru um að starfsmenn dekkjaverkstæðanna treystu sér ekki til að gefa upp verð, önnur verkstæði vísuðu starfsfólki verðlagseftirlitsins á dyr og brögð voru af því að þjónustuaðilar vísuðu verðtökufólki á annan stað, svo sem á skrifstofu viðkomandi fyrirtækis, til þess að fá uppgefið verð. Slíkt samræmist ekki þeim sjálfsagða rétti neytenda að fá skýrar og skilmerkilegar upplýsingar um verð vöru og þjónustu á sölustað og gengur alfarið gegn verklagsreglum verðlagseftirlitsins um framkvæmd verðkannana.

Verðlagseftirlit ASÍ leggur ætíð áherslu á að framkvæmd verðkannana og úrvinnsla sé vönduð og í samræmi við verklagsreglur. Reynslan af verðkönnunum hjá dekkjaverkstæðum á undanförunum árum sýnir að það er að jafnaði mikill verðmunur á milli þjónustuaðila og full ástæða er fyrir neytendur að bera saman verð á þjónustunni. Að fyrirtæki neiti fulltrúum neytenda um að safna og birta þessar upplýsingar veldur verðlagseftirlitinu miklum vonbrigðum og vekur eðlilega upp spurningar um hvað slík fyrirtæki hafi að fela.

Fulltrúum verðlagseftirlitsins var vel tekið hjá eftirfarandi dekkjaverkstæðum og hvetur verðlagseftirlitið neytendur til að beina viðskiptum sínum til þeirra aðila sem virða sjálfsögð réttindi neytenda á samkeppnismarkaði til að fá verðupplýsingar og gera verðsamanburð:  Vöku, Hjólbarða og smurþjónustunni Klöpp, Bílastofunni, Max 1, Hjólbarðaverkstæði Heklu, Bílabúð Benna, VIP dekk og viðhaldi, Hjólbarðaverkstæði Sigurjóns, Dekkjahúsinu, Bíljöfri, Mótorstillingu, Bílaverkstæði Jóa, Titancar, Dekkjasölunni, Pústþjónustu BJB, Dekkverki, Kvikkfix, Bifreiðaverkstæði S.B., Hjólbarðaverkstæði Ísafjarðar, Fossdekki, X5, Dekkjasölu Akureyrar, Höldur og Bara snilld/Bón og púst .

Sjá töflu hér.