Skip to main content

Verslunin Bónus Langholti Akureyri var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum, stórmörkuðum og klukkubúðum víðsvegar um landið mánudaginn 4. apríl.

Verslunin Bónus Langholti Akureyri var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum, stórmörkuðum og klukkubúðum víðsvegar um landið mánudaginn 4. apríl. Hæsta verðið var oftast að finna hjá 10-11 Laugavegi, eða í um helmingi tilvika. Í fjórðungi tilvika var hæsta verðið hjá Samkaupum-Strax Stigahlíð. Eins og áður sagði var lægsta verðið oftast að finna í versluninni Bónus eða í 60% tilvika og í Krónunni Vallarkór í um 20% tilvika. Oftast var verðmunurinn á hæsta og lægsta verði vöru frá 50% upp í 100%, en sjá mátti allt að 296% verðmun á milli verslana.

Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru fáanlegar hjá Fjarðarkaupum eða 130 af 132, Iceland Engihjalla átti til 123 og Hagkaup Skeifunni 120. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá 10-11 eða aðeins 81 af 132 og átti Samkaup-Strax til 84. Af þeim vörum sem fáanlegar voru hjá 10-11 voru þær dýrastar í 71 tilviki af 81. Í þessari mælingu kemur því skýrt í ljós að hjá 10-11 er verðlagningin sú mesta í samanburðinum. 

Mikill verðmunur í mælingunni
Af þeim 132 matvörum sem eru í mælingunni, var verðmunurinn minnstur á BKI extra kaffi 400 g., sem var ódýrast hjá Krónunni á 538 kr. en dýrast hjá Samkaupum-Úrval Miðvangi, Hagkaupum og Iceland Engihjalla á 599 kr. sem jafngildir 11% verðmun. Mesti verðmunurinn var á lauk, sem var dýrastur á 309 kr./kg. hjá 10-11 en ódýrastur á 78 kr./kg. hjá Víði Skeifunni sem er 231 kr. verðmunur eða 296%.

Af þeim vörum sem til voru í öllum verslununum má nefna að mikill verðmunur var á Vogaídýfu m/sweet chilli 175 g. sem var ódýrust á 245 kr. hjá Bónus en dýrust á 489 kr. hjá 10-11 sem gerir 100% verðmun. Annað dæmi um mikinn verðmun er Maryland double choocolade cookies 145 g. sem voru ódýrastar á 98 kr. hjá Bónus en dýrastar á 259 kr. hjá 10-11 sem gerir 164% verðmun. Ísinn Sun Lolly m/appelsínu var ódýrastur á 341 kr. hjá Bónus en dýrastur á 599 kr. hjá Samkaupum-Strax sem er 76% verðmunur. Sósujafnarinn frá Maizena dökkur 250 g. var ódýrastur á 242 kr. hjá Bónus en dýrastur á 479 kr. hjá 10-11 sem er 98% verðmunur. Einnig var mikill verðmunur á bláu Powerade 500 ml. sem var ódýrast á 187 kr. hjá Bónus en dýrast hjá 10/11 á 419 kr. sem er 124% verðmunur eða 232 kr. 

Af öðrum vörum í könnuninni má nefna að mikill verðmunur var á SS – vínarpylsum sem voru ódýrastar hjá Bónus á 1.348 kr./kg. en dýrastar hjá 10-11 á 1.963 kr./kg. sem er 46% verðmunur. Einnig var mikill verðmunur á Goða vínarpylsum sem voru ódýrastar hjá Bónus á 1.135 kr./kg. en dýrastar hjá Samkaupum-Strax á 1.556 kr./kg. sem er 37% verðmunur. Að lokum má nefna að tíðartapparnir frá o.b. comfort normal 16 stk. eru ódýrastir hjá Bónus á 279 kr. en dýrastir hjá 10-11 á 609 kr. sem er 118% verðmunur.   

Sjá nánari upplýsingar í töflu á heimasíðu ASÍ.

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Skeifunni, Krónunni Vallarkór, Nettó Egilsstöðum, Iceland Engihjalla, Nóatúni, Hagkaupum Skeifunni, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Víði Skeifunni, Samkaupum-Úrval Hafnarfirði, Samkaupum-Strax Stigahlíð og 10-11 Laugavegi.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.