Skip to main content

Alþýðusamband Íslands fordæmir enn eina tilraunina til félagslegra undirboða í flugrekstri hér á landi.

Miðstjórn ASÍ fordæmir félagsleg undirboð og krefur Vinnumálastofnun um aðgerðir
Alþýðusamband Íslands fordæmir enn eina tilraunina til félagslegra undirboða í flugrekstri hér á landi. Nú er það Bláfugl með fulltingi SA sem hefur sagt upp flugmönnum í miðri kjaradeilu með hótun um að „leita annarra leiða“ til að lækka launakostnað. Með slíkri framgöngu er vegið að grundvallarréttindum stéttarfélaga og þar með öllu launafólki á Íslandi. Atvinnurekendum er óheimilt að reyna að hafa áhrif á vinnudeilur eða stéttarfélagsaðild með uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn en um það er skýrt kveðið á um í 4 gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. 
Fram hefur komið að Bláfugl nýtir sér þjónustu starfsmannaleiga sem þrátt fyrir skýr ákvæði laga nr. 139/2005 hafa ekki skráð sig hér á landi og enga grein gert fyrir kjörum starfsmanna sinna sem eiga að vera þau sömu og kjarasamningar hér á landi mæla fyrir um. Bláfugli er ekki heimilt að eiga viðskipti við starfsmannaleigur sem ekki sinna lögbundnum skyldum sínum og ASÍ skorar á Vinnumálastofnun að rísa undir hlutverki sínu og nota allar þær heimildir sem hún hefur til þess að tryggja að ekki séu stunduð félagsleg undirboð og lögbrot á íslenskum vinnumarkaði.