Skip to main content

Mikill verðmunur var á jólamat milli verslana í verðkönnun ASÍ sem framkvæmd var á mánudaginn síðastliðinn. Mestur var verðmunurinn á algengum jólamat eins og kjöti, gosi, jólaöli og konfekti og er því ljóst að neytendur geta sparað sér töluverðar fjárhæðir þegar keypt er í jólamatinn.

Mikill verðmunur var á jólamat milli verslana í verðkönnun ASÍ sem framkvæmd var á mánudaginn síðastliðinn.
Mestur var verðmunurinn á algengum jólamat eins og kjöti, gosi, jólaöli og konfekti og er því ljóst að neytendur geta sparað sér töluverðar fjárhæðir þegar keypt er í jólamatinn.
Allt að 1.400 kr. verðmunur var á kílóverðinu af hangilæri sem gerir 4.200 kr. verðmun ef 3kg hangilæri er keypt og 890 kr. verðmunur var á kílói af Nóa konfekti.

4.200 kr. verðmunur á hangilæri
Mestur verðmunur var á léttreyktum lambahrygg frá Kea eða 73% verðmunur á kílóinu. Lægsta verðið var í Bónus, 1.679 kr en það hæsta í Hagkaup, 2.899 kr sem gerir 1.220 króna verðmun. Þá var 50% verðmunur á kílói af úrbeinuðu SS birkireyktu hangilæri eða 1.399 kr. verðmunur. Lægsta verðið var í Krónunni, 2.799 kr. en það hæsta í Nettó 4.198 krónur. Ef við gefum okkur að keypt sé 3 kg hangilæri gerir það 4.200 króna verðmun.

Mikill verðmunur var á gosi eða upp í 134% verðmunur á hálfs líters dós af Hátíðarblöndu frá Vífilfelli. Lægsta verðið mátti finna í Bónus, 85 kr. en það hæsta, 199 kr. í Iceland en það gerir 114 kr. eða 134% verðmun. Þá var 58% verðmunur á 2l flösku af Pepsi Max, hæst var verðið í Hagkaup 339 kr. en lægst, 215 kr. í Bónus.

Verðmunur á konfekti var einnig mikill. Mestur var hann 135% eða 420 kr. á 300 gr. After eight kassa. Lægsta verðið, 319 kr. mátti finna í Fjarðarkaup en það hæsta, 749 kr. í Iceland. Mestur verðmunur í krónum talið var á kílói af Nóa konfekti, lægsta verðið, 2.999 mátti finna í Krónunni en það hæsta, 3.899 í Hagkaup sem gerir 30% eða 890 kr. verðmun.

Hægt að spara sér háar upphæðir
Verðmunur á jólamat getur fljótt orðið mikill enda í mörgum tilfellum um að ræða nokkuð dýrar vörur sem mikið er keypt af yfir hátíðarnar. Mörg þúsund króna verðmunur getur verið á sömu jólasteikinni milli verslana og þá eru upphæðirnar fljótar að telja þegar mikið er keypt af gosi auk þess sem mikill verðmunur getur verið á konfekti sem er tiltölulega dýr vara. Neytendur geta því sparað umtalsvert með því að kaupa í jólamatinn þar sem verðið er lágt.

Hér má sjá verðkönnunina á jólamatnum í heild sinni

Verðbreytingar hraðar á þessum árstíma
Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni eða í 55 tilfellum af 105 en Fjarðarkaup var næst oftast með lægsta verðið eða í 20 tilfellum. Hæstu verðin voru oftast í Iceland, 46 tilfellum af 105 en næst oftast í Hagkaup eða í 40 tilfellum. Lægstu verðin á kjöti og konfekti dreifðust þó á margar verslanir. Algengt er að verslanir séu með ýmis tilboð á þessum árstíma og eru verðbreytingar tíðar. Neytendur eru því hvattir til að fylgjast vel með tilboðum og verðbreytingum á næstu dögum.

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mjódd, Bónus Skeifunni, Krónunni Bíldshöfða, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup í Garðabæ, Kjörbúðinni Garði og Costco. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.