Skip to main content

Pistill forseta ASÍ

Verkalýðshreyfingin er hreyfing lýðræðis, mannréttinda og friðar. Því var gleðilegt að sjá svo marga mæta á Austurvöll á miðvikudag í samstöðu gegn rasisma þótt tilefnið væri ömurlegt.

Það var gleðilegt að sjá svo marga mæta á Austurvöll á miðvikudag í samstöðu gegn rasisma þótt tilefnið væri ömurlegt. Verkalýðshreyfingin er hreyfing lýðræðis, mannréttinda og friðar. Hreyfing almennings gegn öflum sem sundra og kúga. Þess vegna hljóta samtök vinnandi fólks að taka stöðu með hinum kúguðu gegn kerfisbundinni niðurlægingu og valdbeitingu. Staða mála í Bandaríkjunum er svo alvarleg að hún ógnar friði þar í landi og þar með heimsfriðnum. Um leið varpar hún ljósi á kerfisbundið kynþáttamisrétti sem þrífst um allan heim. Það er því þörf á friðarsamstöðu sem aldrei fyrr. Munum að sterkasta aflið gegn inngrónu misrétti og stofnanabundnum rasisma er samstaða. Þar dugar ekkert minna en fjöldahreyfing og við skulum öll vera hluti af henni.

Á innlendum vettvangi náði ASÍ að afstýra stórslysi um síðustu helgi í tengslum við lagasetningu um greiðslu launakostnaðar á uppsagnarfresti. Góðu heilli og eftir mikinn þrýsting samþykkti Alþingi að gera breytingar í þá veru að fyrirtækjum beri að endurráða fólk á sömu kjörum og það var á. Þetta skilyrði gildir í 6 mánuði frá uppsögn. Það er því ekki hægt að fá fé úr ríkissjóði til að greiða fólki á uppsagnarfresti og ætla svo að endurráða það á lakari kjörum. Þetta skipti miklu máli og er til marks um hvað sameinuð verkalýðshreyfing getur gert. Ég hvet fólk til að kynna sér réttindi sín í tengslum við úrræði stjórnvalda, það er töluverð hætta á að réttindi glatist ef ekki er fylgst með. Þar er stéttarfélagið þinn bakhjarl.

Munum að njóta sólar og sumars eftir erfiðan vetur,
Drífa