Skip to main content

Verð á matvöru hefur hækkað töluvert á milli ára. Þegar bornar eru saman verðkannanir sem verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi í maí 2014 og í maí 2015, koma í ljós töluverðar hækkanir í næstum öllum vöruflokkum.

Verð á matvöru hefur hækkað töluvert á milli ára. Þegar bornar eru saman verðkannanir sem verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi í maí 2014 og í maí 2015, koma í ljós töluverðar hækkanir í næstum öllum vöruflokkum. Af þeim vörum sem bornar eru saman má sjá einstöku lækkanir hjá öllum verslunum en það eru þá lækkanir á vörum sem áður báru  vörugjöld sem afnumin voru um áramót. 

Verðhækkanir flestum vöruflokkum
Mestu verðbreytingarnar eru í vöruflokknum ávextir og grænmeti en þar má sjá allt að 152% hækkun á kílóverði á vatnsmelónu, 142% hækkun á icebergsalati og 124% hækkun á gulum melónum. Flestar vörur sem bornar eru saman hafa hækkað í verði. Sem dæmi má nefna að mjólkurvörur hafa hækkað í öllum verslunum þrátt fyrir einstöku lækkanir. Þannig hefur 1/2 l. af stoðmjólk hækkað um 3-6% í verði og 400 gr. rjómaostur til matargerðar frá MS hefur hækkað um 3-13%.
 Af öðrum vörum má nefna að SS sviðasulta hefur hækkað um 3-25% mest hjá Bónus úr 2.159 kr. í 2.690 kr. en minnst hjá Krónunni úr 2.610 kr. í 2.695 kr.

Einstöku verðlækkanir
 Það eru aðeins 2 tegundir sem lækka í verði hjá öllum verslunum. Ódýrasta fáanlega kílóið af sykri lækkar um 49-70% í verði, mest hjá Samkaupum-Úrvali úr 429 kr. í 129 kr. en minnst hjá Víði úr 328 kr. í 168 kr. Þá lækkar kílóverð á Kiwí um 4-53%, mest hjá Víði úr 789 kr. í 368 kr. en minnst hjá Samkaupum-Úrvali úr 489 kr. í 469 kr.
Einnig má nefna að Pepsí Max 2l. hefur lækkað i verði hjá Víði og Fjarðarkaupum um 10%, hjá Bónus, Krónunni og Nettó um 9%, hjá Hagkaupum um 3%, en hækkaði í verði hjá Samkaupum-Úrvali um 4% og Iceland um 5%. Að lokum má nefna að o.b. Pro comfort tíðartappar 16 stk. hafa lækkað í verði hjá Fjarðarkaupum um 16%, hjá Samkaupum-Úrvali 10%, hjá Nettó og Iceland um 1%, hjá Víði um 4%, en hækkað í verði hjá Krónunni um 5%, Bónus um 6% og Hagkaupum um 15%.

Samanburð milli verslana og tímabili má skoða betur á heimasíðu ASÍ.

Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miðast við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ frá 26.5.2014 og 11.5.2015 Rétt er að árétta að mæld eru þau verð sem í gildi eru á hverjum tíma í verslunni og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar einstakra vara.
 Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Samkaupum-Úrvali, Hagkaupum, Víði og Iceland.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
 Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.