Skip to main content
VMF

Markviss húsnæðisstuðningur við þá tekjuhæstu

By mars 22, 2022No Comments

Stjórnvöld hafa á undan liðnum árum gripið til ráðstafana sem fært hafa beinan húsnæðisstuðning til hinna tekjuhæstu í samfélaginu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýju mánaðaryfirliti Sviðs stefnumótunar og greininga hjá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ).

Í yfirlitinu kemur fram að þessi tilfærsla hafi átt sér stað í gegnum skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðislána. Á sama tíma hefur markvisst verið dregið úr stuðningi í gegnum vaxtabótakerfið sem einkum nýtist ungum og tekjulágum.

Nefnt er að árið 2013 hafi beinn fjárhagslegur stuðningur við heimili í formi vaxtabóta numið 9,3 milljörðum króna. Árið 2020 höfðu útgjöld ríkisins vegna þessa lækkað um 75% sökum þeirrar stefnubreytingar að innleiða stuðning í formi skattaívilnunar vegna ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á fasteignalán. Sá stuðningur var að hluta mótvægi við skerðingu vaxtabóta. Á heildina lækkaði beinn stuðningur til heimila með íbúðalán um 25%. Tekjuhæstu 10% þeirra sem eru með íbúðalán njóta um helmings af þeim stuðningi sem skattfrelsið veitir.

Beinn húsnæðisstuðningur færður til þeirra tekjuhæstu

Síðasta áratug hafa stjórnvöld markvisst fært húsnæðisstuðning úr vaxtabótakerfinu yfir í önnur kerfi. Þar má nefna stofnframlög, hlutdeildarlán og skattafslátt á ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán. Þarf þá að hafa í huga að stofnframlög og hlutdeildarlán eru lán frá ríkinu sem endurgreiðast og ekki er hægt að leggja það til jafns við vaxtabætur sem eru tilfærsla. Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar er ívilnun þar sem af honum hefði annars verið greiddur  tekjuskattur við útgreiðslu. Það er því hægt að meta þann stuðning til fjár. Við útreikninga er stuðningurinn metinn sem sá skattur sem greiddur hefði verið ef ráðstöfunin hefði verið skattlögð að fullu.[1]

Árið 2013 fólst beinn fjárhagslegur stuðningur til heimila með íbúðalán í vaxtabótum. Stuðningurinn nam 9,1 milljörðum, eða 0,4% af vergri landsframleiðslu.[2] Árið 2020 höfðu útgjöldin lækkað um 75%. Á tímabilinu breyttist stefna í húsnæðismálum. Tekin var upp stuðningur í formi skattaívilnunar vegna ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á fasteignalán sem fyrst kom til framkvæmda árið 2014. Sá stuðningur var að hluta mótvægi við skerðingu vaxtabóta. Á heildina lækkaði beinn stuðningur til heimila með íbúðalán um 25%.

Vaxtabætur eru tekju- og eignatengdar þannig að ungt og tekjulágt fólk nýtur meiri vaxtabóta í hlutfalli við vaxtagjöld. Þau tekjuhæstu fá mjög lítið í vaxtabætur. Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar er ekki tekjutengd en hámark er á útgreiðslunni. Hvernig útgreiðslan dreifist eftir tekjum og aldri veltur því á því hverjir nýta sér ráðstöfunina. Gögnin sýna að öll árin njóta þau tekjuhæstu langstærsta hluta af skattaívilnuninni. Tekjuhæstu 10% þeirra sem eru með íbúðalán njóta um helmings stuðnings skattfrelsisins. Tekjuhæstu 10% fá að jafnaði um 1-3% vaxtabóta.

Á meðfylgjandi myndum má sjá verðmæti skattaafsláttarins og vaxtabóta eftir tekju- og aldurshópum. Vaxtabætur greiðast í mun meira mæli til tekjulægri og yngri hópa. Hæstu vaxtabætur eru greiddar einstaklingum í þriðju til sjöundi tekjutíundum og einstaklingum á aldrinum 25 til 39 ára. Skattaívilnun vegna skattfrjálsrar ráðstöfunar nýtist hins vegar mest hjá einstaklingum í sjöundu til tíundu tekjutíund og einstaklingum á aldrinum 35 til 59 ára.

 
Fyrir tímabilið 2014-2020 í heild sinni námu vaxtabætur alls 29 milljörðum, þar af fóru 23 milljarðar til tekjulægstu 70% einstaklinga. Fyrir sama tímabil nam skattaívilnun vegna skattfrjálsrar ráðstöfunar 33 milljörðum, þar af fóru 28 milljarðar til þeirra tekjuhæstu 30% einstaklinga.

Hlutfall heimila sem fá vaxtabætur lækkaði stöðugt frá 2009 til 2020 og mun líklega halda áfram að lækka. Árið 2020 fengu 11% þeirra með íbúðalán vaxtabætur. Á meðan nýtti fjórðungur þeirra með íbúðalán sér skattfrjálsa ráðstöfun. Það hlutfall hefur haldist nokkuð stöðugt frá því að heimild til úttektarinnar var leyfð.

[1] Miðað er við meðaltal tekjuskattstofn í einstökum tekjutíunda og aldurshópum og þannig ákvarðast skattþrepið. Gögnin er fengin úr sérkeyrslu frá Hagstofu Íslands. Einungis þeir sem eru ekki með handreiknað eða áætlað framtal. Miðað er við einstaklinga. Hjá sambúðarfólki er öllu deilt í tvennt og teljast sem tveir einstaklingar hjá sambúðarfólki

[2] Allar tölur um húsnæðisstuðning eru á verðlagi ársins 2020.