Skip to main content

Íslenskir atvinnurekendur ekki barnanna bestir

Ólaunuðum starfsmönnum, hvort sem þeir kallast sjálfboðaliðar eða starfsnemar, hefur fjölgað hratt síðustu misseri í íslensku atvinnulífi en mest ber á slíkum í ferðaþjónustu, landbúnaði og við barnagæslu og heimilisaðstoð.

Ólaunuðum starfsmönnum, hvort sem þeir kallast sjálfboðaliðar eða starfsnemar, hefur fjölgað hratt síðustu misseri í íslensku atvinnulífi en mest ber á slíku í ferðaþjónustu, landbúnaði og við barnagæslu og heimilisaðstoð. Ásókn erlendra ungmenna í sjálfboðaliðastörf hér á landi er einn fylgifiskur þess að Ísland er komið á kortið sem ferðamannaland. Þetta segir Dröfn Haraldsdóttir, sérfræðingur og verkefnastjóri hjá Alþýðusambandi Íslands, en hún starfar meðal annars við átakið „Einn réttur, ekkert svindl“ sem ætlað er að vinna gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi.

„Í þessum töluðu orðum eru 167 auglýsingar þar sem íslenskir atvinnurekendur auglýsa eftir sjálfboðaliðum virkar inni á þeirri vefsíðu sem mest er notuð, 79 á annarri en síðurnar eru fleiri og þá eru ótaldar Facebook-síður og hópar eins og Farm and au-pair jobs in Iceland og fleiri. Í sumum tilfellum reka fyrirtæki sig eingöngu á sjálfboðaliðum og eru jafnvel með vel á annan tug ólaunaðra starfsmanna í vinnu,“ segir Dröfn og ítrekar að sjálfboðastörf og önnur ólaunuð störf í efnahagslegum tilgangi séu lögbrot.

„Ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi, framleiðslu og sölu á vöru eða þjónustu á markaði, í hagnaðarskyni og oft í samkeppni við fyrirtæki í sömu atvinnustarfsemi, felur í sér óásættanleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði og stenst hvorki kjarasamninga né lög. Það telst varla eðlilegt að atvinnurekendur byggi samkeppnisforskot sitt á launalausum starfsmönnum. Það keppir enginn við fyrirtæki sem sleppa við allan launakostnað auk þess sem grafið er undan kjörum launþega í landbúnaði og ferðaþjónustu og eru launin í þessum greinum ekki há fyrir,“ segir hún.

Samkvæmt lagabókstafnum eru sjálfboðaliðastörf einungis réttlætanleg þegar um störf fyrir mannúðar- eða hjálparsamtök er að ræða, störf sem annars væru ekki unnin. Um öll önnur störf gilda ákvæði kjarasamninga, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks, sem segja að kjarasamningar eru lágmarkskjör samkvæmt lögum og samningar um lakari kjör eru ógildir.

Ungt fólk í ævintýraleit
„Atvinnurekendur brjóta því meðvitað og ómeðvitað lög í landinu með því að vera með ólaunaða starfsmenn og þau erlendu ungmenni sem ráðin eru á slíkum forsendum eru yfirleitt í ævintýraleit og gera sér enga grein fyrir því að verið sé að brjóta á þeim,“ segir Dröfn.

Alþýðusamband Íslands hefur undir merkjum verkefnisins „Einn réttur, ekkert svindl!“ unnið að því að upplýsa og leiðbeina atvinnurekendum um hvað á við þegar ráðnir eru erlendir starfsmenn. Margs konar misskilningur og fáfræði virðist vaða uppi þó eðlilegt sé að gera þá kröfu á þá sem standa í rekstri og ráða til sín erlenda starfsmenn að þeir kynni sér þau lög og reglur sem um slíkt gilda að sögn Drafnar. Á heimasíðu ASÍ má nálgast bæklinginn „Ráðning erlendra starfsmanna“.

Getur verið dýrkeypt að hafa ólöglegan vinnukraft
„Margir atvinnurekendur telja sig vera að gera þessu unga fólki mikinn greiða og skilja ekki hvert vandamálið er því fólkið er svo ánægt og hrifið af landinu. Oft heyrum við að sjálfboðaliðarnir séu bestu starfsmenn sem viðkomandi hafi haft. Yfirleitt eru sjálfboðaliðarnir hvergi skráðir, eru ekki með kennitölu, alveg ótryggðir sem getur reynst dýrt spaug ef slys verða á vinnustað. Nokkur fjöldi þessara starfsmanna er frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins og þarf því atvinnuleyfi til að starfa hér á landi. Ekki eru greiddir skattar fyrir fæði og húsnæði sem yfirleitt er eina greiðslan fyrir vinnuna. Í flestum tilfellum eru þessir starfsmenn því ekki bara launalausir heldur réttindalausir, algerlega upp á vinnuveitanda sinn komnir,“ segir Dröfn.

Starfsnemar koma ekki í stað annarra starfsmanna
Sem viðbrögð við neikvæðri umræðu um sjálfboðaliða virðist færast í vöxt að kalla ólaunaða starfsmenn „starfsnema“. Starfsnemar eiga að vera í námi og ekki er ætlast til þess að þeir vinni einir eða beri ábyrgð segir Dröfn.

„Starfsnemar geta því aldrei komið í stað eða gengið í störf annarra starfsmanna. Langt í frá öll fyrirtæki geta tekið á móti starfsnemum og er eðlilegt að þau sem slíkt gera hafi viðeigandi viðurkenningu menntamálayfirvalda. Það þarf að vera fyrir hendi faglærður leiðbeinandi sem hefur fengið þjálfun í leiðbeiningu nýliða. Það verður að vera fyrir hendi samningur milli viðkomandi skóla og fyrirtækis þar sem m.a. er tekið til tímalengdar samningsins, starfskjara nemans, trygginga og réttinda“.

Leitið til viðurkenndra vinnumiðlana
Sumir atvinnurekendur hafa borið því fyrir sig að það sé erfitt að fá starfsfólk eins og atvinnuástandið er um þessar mundir. Dröfn nefnir í því sambandi að Vinnumálastofnun reki evrópska vinnumiðlun, EURES sem hefur í gegnum tíðina miðlað fjölda fólks bæði í landbúnaðarstörf og ferðaþjónustu hér á landi. EURES veitir aðgang að starfsfólki frá öllu Evrópska efnahagssvæðinu sem telur í kringum 500 milljónir manns.

Nánari upplýsingar

Ítarefni um ráðningar starfsfólks og sjálfboðaliðastörf má meðal annars finna á vef Bændasamtakanna, bondi.is og á vef Alþýðusambandsins, asi.is. Um árabil hafa Bændasamtök Íslands og samtök launþega gert með sér samninga um kaup og kjör starfsmanna sem vinna almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum. Bændasamtökin hafa hvatt félagsmenn sína til að kynna sér vel þá kjarasamninga og reglur sem gilda hverju sinni og tryggja þannig að þessi mál séu í góðum farvegi.

Viðtalið er við Dröf Haraldsdóttur, sérfræðing og verkefnastjóra hjá Alþýðusambandi Íslands, og birtist í Bændablaðinu 21. júlí 2016.