Skip to main content
VMF

Krefjast aðgerða vegna kreppunnar

By nóvember 21, 2022No Comments

Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC) hefur birt ákall þar sem þess er krafist að stjórnmálamenn í álfunni fari að vilja almennings og bregðist við réttmætum kröfum launafólks um aðgerðir til að lina afleiðingar afkomukreppunnar (e. Cost of Living Crisis). Í ákalli ETUC segir að laun séu ekki orsök þeirrar miklu verðbólgu sem nú geisar víða um lönd. Kreppan bitni af mestum þunga á launafólki sem verði fyrir kaupmáttarskerðingu vegna mikilla hækkana á nauðsynjavörum. Þessi þróun ýti enn frekar undir ójöfnuð þar sem láglaunafólk verði fyrir mestum búsifjum.  

Atvinnurekendur, stjórnvöld og Evrópusambandið séu skyldugir til að grípa þegar í stað til ráðstafana til að bregðast við afkomukreppunni með því að hækka laun, koma nauðstöddum fjölskyldum til hjálpar og auka skattlagningu á ofsagróða og auðmagn. 

ETUC krefst þess að áætlun í sex liðum verði hrundið af stað hið fyrsta: 

Laun verði hækkuð til að bregðast við hækkunum á nauðsynjum og tryggt verði að launafólk fái hlutdeild í aukinni framleiðni. 
Launafólk sem á í erfiðleikum með að standa undir greiðslum vegna verðhækkana á orku, matvælum og húsaleigu fái beinan fjárhagslegan stuðning. Allir eigi rétt á að viðunandi húsnæði og að hafa ráð á að kaupa mat. 
Verðþak verði sett á orku og umframhagnaður orkufyrirtækja og annarra verði skattlagður. Komið verði í veg fyrir spákaupmennsku með orku og matvæli. 
Stjórnvöld í Evrópuríkjum og Evrópusambandið grípi til aðgerða til að verja kjör og störf í iðnaði, þjónustu og almannaþjónustu. 
Umbætur verði gerðar á evrópska orkumarkaðinum. Viðurkennt verði að orka teljist almannagæði og fjárfest verði í innviðum á því sviði.  
Verkalýðsfélögum verði tryggt sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar um hvernig bregðast skuli við kreppunni. Reynslan sýni að þannig megi ná árangri. 

Segir í lok ákallsins að stjórnvöld og Evrópusambandið geti ekki leitt kreppuna hjá sér og beðið þess að henni linni. Verði ekkert að gert eða gripið til rangra aðgerða á borð við vaxtahækkanir, frystingu launa og niðurskurð opinberra útgjalda verði afleiðingarnar skelfilegar.  

Innan ETUC starfa 93 verkalýðsfélög og tíu evrópsk verkalýðssamtök með samtals 45 milljónir félaga í 41 Evrópuríki.