Skip to main content

KLUKK er nýtt tímaskráningarapp fyrir Android/iOS sem hjálpar launafólki að halda utan um unnar vinnustundir. Á auðveldan hátt má nálgast yfirlit yfir unna tíma í mánuði og bera saman við greiddar vinnustundir á launaseðli. KLUKK er ókeypis og er komið í Appstore (Iphone) og Playstore (Android). Félagsmenn eru hvattir til að ná í appið og byrja að prófa.

KLUKK er nýtt tímaskráningarapp fyrir Android/iOS sem hjálpar launafólki að halda utan um unnar vinnustundir.
Notandi skráir vinnutímana sína með Klukk og hefur þannig yfirsýn yfir unnar vinnustundir. Hægt er að virkja staðsetningarbúnað sem minnir notandann á að klukka sig inn og út. Á auðveldan hátt má nálgast yfirlit yfir unna tíma í mánuði og bera saman við greiddar vinnustundir á launaseðli og einnig er hægt að fá senda  tímaskráningarskýrslu úr Klukk á netfang viðkomandi.  

KLUKK er ókeypis og er komið í Appstore (Iphone) og Playstore (Android).

Félagsmenn eru hvattir til að ná í appið og byrja að prófa.

ASÍ hefur tekið saman gagnlegar spurningar og svör um appið:

  • Hvað er Klukk?

Klukk er tímaskráningarapp sem hjálpar þér að halda utan um vinnutímana þína með einföldum hætti. Þannig hjálpar appið til við að passa að þú fáir rétt greitt frá þínum launagreiðanda.

  • Er verið að safna persónuupplýsingum í gegnum Klukk?

Upplýsingarnar sem verða til snúa fyrst og fremst að vinnutíma þínum og þú ein/n hefur aðgang að þeim. ASÍ mun ekki nýta sér neinar upplýsingar sem verða til við notkun appsins.

  • Hver getur séð upplýsingarnar um mig?

Enginn nema þú. Þú átt hins vegar möguleika á að nálgast nánari upplýsingar um þig en fram kemur í tímaskýrslu en til þess þarftu aðstoð ASÍ.

  • Hvar eru upplýsingarnar um mig vistaðar?

Allar upplýsingar sem verða til í gegnum Klukk eru sendar á öruggan máta og geymdar í skýi í eigu Google. Klukk fylgir íslenskum lögum um meðferð persónuupplýsinga og ítrasta öryggis er gætt í meðferð þeirra.

  • Þarf að setja inn staðsetningu á vinnustað?

Það er ekki nauðsynlegt en getur verið þægilegt. Klukk býður nefnilega upp á að láta þig vita þegar þú mætir í vinnu og ferð úr vinnu. Með þessari virkni er líklegra að þú munir eftir að klukka þig inn og út.

  • Get ég skráð mig án Facebook?

Hægt er að skrá sig án Facebook, þá þarf að nota gilt netfang og skrá nafn og lykilorð. Facebook er í raun fljótlegasta og þægilegasta leiðin til að skrá sig inn.

  • Getur Facebook nýtt upplýsingar úr Klukk?

Nei, það eru engin tengsl þarna á milli. Appið notar Facebook eingöngu til að skrá sig inn og til að fá netfang notandans sem er hans notandaauðkenni. Einungis er verið að auðvelda innskráningarferlið með því að bjóða notendum að skrá sig inn með Facebook.

  • Er hægt að vera með fleiri en einn vinnuveitanda?

Já það er ekkert mál. Þú getur skráð eins marga og þú þarft. Þegar farið er inn í Launagreiðendur í valmynd er smellt á bæta við launagreiðanda og kennitala hans skráð inn.

  • Get ég klukkað mig inn og/eða út oft á dag?

Þegar búið er að klukka sig út er hægt að klukka sig aftur inn og ný skráning hefst. Hægt er að klukka sig inn hjá mismundandi launagreiðendum sama daginn.

  • Get ég klukkað mig inn þó ég eigi ekki inneign og get ekki tengst netinu?

Nei, það þarf nettengingu til þess að klukka sig inn og út ásamt því að nýta aðra eiginleika appsins. Við innskráningu þarf einnig að tengjast netþjóni til að sækja gagnaupplýsingar um notendanafn og lykilorð.

  • Ég veit ekki kennitölu launagreiðanda?

Kennitölu launagreiðanda áttu að finna á launaseðlinum þínum. Einnig er kennitölu fyrirtækja að finna á já.is.

  • Hvað geri ég ef ég gleymi að klukka mig inn?

Klukkaðu þig þá inn um leið og þú manst. Í lok vinnudags þegar þú ert búin/n að klukka þig út getur þú lagað skráninguna eftir á með því að fara í Tímarnir mínir í valmyndinni og smella á pennann lengst til hægri. Þegar þú ert búinn að laga skráninguna sérðu að penninn verður rauður en það þýðir að um eftirá skráningu eða leiðréttingu er að ræða.

  • Ég varð batteríslaus áður en ég gat klukkað mig út?

Þegar þú opnar appið aftur þá verður það í sama ástandi og það var áður en síminn varð batteríslaus. Klukkaðu þig út þegar síminn er kominn í gang aftur og lagfærðu svo skráninguna eftir á.

  • Þarf ég að klukka mig inn eða út ef ég hef skráð inn veikindadag?

Til að skrá inn veikindadag þarf bara að ýta á sjúkrakassann og ekkert annað. Þú þarft ekki að klukka þig inn eða út til þess að veikindi skráist.

Ef þú hefur frekar spurningar um Klukk þá ekki hika við að senda fyrirspurn á klukk@asi.is

Apple:
https://itunes.apple.com/us/app/klukk/id1048984062?ls=1&mt=8

Google:
http://play.google.com/store/apps/details?id=is.stokkur.klukk.android