Skip to main content

Jólamatur hefur oftar hækkað í verði en lækkað í flestum verslunum síðan í fyrra, að því er fram kemur í nýrri verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi mánudaginn 14. desember.

Jólamatur hefur oftar hækkað í verði en lækkað í flestum verslunum síðan í fyrra, að því er fram kemur í nýrri verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi mánudaginn 14. desember. Verslanirnar sem hafa frekar hækkað verð en lækkað eru Bónus, Nettó, Krónan, Hagkaup og Samkaup-Úrval. En Fjarðarkaup og Víðir hafa oftar lækkað verð en hækkað. Verslunin Iceland hefur jafn oft lækkað og hækkað verð á milli ára.

Miklar hækkanir á mjólkurvörum
Í öllum verslunum hafa mjólkurvörur hækkað mikið í verði á milli ára, sem dæmi hefur ¼ l. af rjóma frá MS, sem er mikið notaður í matseld yfir jólahátíðina, hækkað í verði síðan í fyrra. Mesta hækkunin er 31% hjá Iceland, 15% hjá Hagkaupum, 10% hjá Samkaupum-Úrval, 8% hjá Víði, 7% hjá Bónus, Krónunni og Fjarðarkaupum og 5% hjá Nettó. Matreiðslurjóminn frá MS ½ l. hefur einnig hækkað mikið í verði en mesta hækkunin er 19% hjá Hagkaupum, 12% hjá Víði, 10% hjá Fjarðarkaupum, 9% hjá Bónus, Nettó og Krónunni, 8% hjá Iceland og 5% hjá Samkaupum-Úrval. Sem er langt umfram það sem hækkun vsk. á matvöru gaf tilefni til.

Afnám sykurskatts skilar sér illa
Verð á sælgæti hefur ekki lækkað í samræmi við afnám sykurskatts. 135 gr. Nóa konfektkassi hækkaði í verði hjá fimm verslunum af 8 síðan í desember 2014. Mesta hækkunin er 13% hjá Nettó, 12% hjá Bónus, 8% hjá Samkaupum-Úrval, 5% hjá Krónunni og 1% hjá Víði en hefur lækkað í verði 15% hjá Iceland, 7% hjá Fjarðarkaupum og 3% hjá Hagkaupum. Af því sælgæti sem borið er saman á milli ára eru það aðeins Ferro Rocher, Celebrations og 600 gr. Lindu konfektkassi sem lækka í verði í öllum verslunum.
Af öðrum vörum má nefna að bæði ORA grænar baunir í ¼ dós hafa hækkað í verði í öllum verslunum nema Iceland og agúrkusalatið frá ORA hefur einnig hækkað í verði hjá öllum verslunum nema verslunum Iceland og Hagkaupum.

Verðsamanburð milli ára af jólamat má skoða betur á heimasíðu ASÍ.

Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miða við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ frá 9. desember 2014 og 14. desember 2015. Rétt er að árétta að mæld eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma í versluninni og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar einstakra vara.
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Víði,  Fjarðarkaupum, Samkaupum Úrval, Iceland og Hagkaupum.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.