Skip to main content

Pistill forseta ASÍ

Þær aðgerðir sem gripið er til núna í óvissuástandi munu hafa afleiðingar til ára og áratuga. Sá rauði þráður sem lagt var upp með af hendi Alþýðusambandsins í vor er að tryggja afkomuöryggi og byggja upp betra atvinnulíf.

Þær aðgerðir sem gripið er til núna í óvissuástandi munu hafa afleiðingar til ára og áratuga. Sá rauði þráður sem lagt var upp með af hendi Alþýðusambandsins í vor er að tryggja afkomuöryggi og byggja upp betra atvinnulíf. Jöfnuður skal vera í fyrirrúmi við allar ákvarðanir og öryggis- og velferðarkerfi tryggð og efld. Við vissum þá að ýmis öfl myndu reyna að skara eld að eigin köku og dustað yrði rykið af úreltum hugmyndum til að auka arð fárra og draga úr lífsgæðum fjöldans. Sá söngur er farinn að berast og ekki alveg úr óvæntri átt þar sem OECD er annars vegar. Einkavæðing verðmætra eigna, eða eins og það heitir í skýrslu OECD: Breytt skipan eignarhalds á Keflavíkurflugvelli er eitt dæmið. Tillögur til að veita harkhagkerfinu lausan tauminn er annað dæmi og svo vitum við af kröfum um frystingu launahækkana eða að draga úr réttindum vinnandi fólks. Það kemur því í hlut almannaheillasamtaka að reisa varðstöðu um okkar mikilvægu kerfi ekki síður en krefjast þess að þau verði efld til að sinna sínu hlutverki. Að grípa fólk og búa svo um hnútana að hér líði enginn skort.

Kóf-ástandið hefur afhjúpað bæði styrkleika og veikleika okkar kerfa. Þeir hópar sem standa verst núna voru illa staddir fyrir og þannig ýkist vandinn sem fyrir var í samfélaginu. Vandinn fer ekki frá okkur og að fara aftur í sama farið eftir kófið er heldur ekki í boði. Fólk utan vinnumarkaðar og fólk sem vinnur erfið láglaunastörf þarf að sjá betri tíma framundan. Endurreisnin þarf að fela í sér styrkingu opinberu kerfanna, öflugra öryggisnet og skattkerfi sem notað er til að auka jöfnuð. Þannig byggjum við sterkara og jafnara samfélag til framtíðar.

Góða helgi,
Drífa