Skip to main content

Verðlagseftirlit ASÍ tók saman æfingagjöld í knattspyrnu hjá 16 íþróttafélögum víðsvegar um landið. Borin voru saman æfingargjöld hjá 4. og 6. flokki félaganna.

Verðlagseftirlit ASÍ tók saman æfingagjöld í knattspyrnu hjá 16 íþróttafélögum víðsvegar um landið. Borin voru saman æfingargjöld hjá 4. og 6. flokki félaganna. Svo verðlagseftirlitið gæti borið gjöldin saman var fundið út mánaðargjald, þar sem félögin hafa ekki samræmda uppsetningu á gjaldskránni. Sum eru með gjaldskrá fyrir eitt ár í senn, önnur annargjöld og jafnvel er búið að setja sölu á varningi eða vinnu við mót inn í gjaldskrána.

4. flokkur
Verðlagseftirlitið bar saman gjaldskrá fyrir 4. flokk, þ.e. 12 og 13 ára börn. Dýrast var að æfa hjá Breiðabliki en hjá þeim kostar mánuðurinn 8.250 kr. eða 33.000 kr. fyrir haustönnina sem spannar 4 mánuði. Ódýrast var að æfa hjá ÍR og UMF Selfoss en þar kostar mánuðurinn 5.500 kr. eða 22.000 kr. fyrir 4 mánuði. Verðmunurinn er 50% eða 11.000 kr. 

6. flokkur
Verðlagseftirlitið bar einnig saman gjaldskrá fyrir 6. flokk, eða 8 og 9 ára börn. Dýrast var að æfa hjá Breiðabliki en þar kostar mánuðurinn 7.417 kr. eða 29.667 kr. fyrir 4 mánuði. Ódýrast var að æfa hjá KA en þar kostar mánuðurinn 4.667 kr. eða 18.667 kr. Verðmunurinn er 59% eða 11.000 kr.

Miklar hækkanir frá því í fyrra
Gjaldskrá félaganna hefur aðeins staðið í stað hjá tveimur félögum í báðum flokkum, FH og Knattspyrnufélaginu Víkingi. Einnig var sama gjaldskrá fyrir 6. flokk á milli ára hjá Knattspyrnufélaginu Haukum. Önnur félög hafa hækkað gjaldskrána um 2-25%.
Hjá 4. flokki var mesta hækkunin hjá Þór Akureyri, úr 20.000 kr. í 25.000 kr. eða um 25%, hjá KA og HK um 13%, hjá Fram um 12% og hjá KR, Gróttu og UMF Selfoss um 10%.
Í 6 . flokki var mesta hækkunin hjá Fram, úr 18.667 kr. í 21.667 kr. eða um 16%, hjá Þór um 14%, HK um 12%, Breiðabliki og UMF Selfoss um 11% og hjá KR, Stjörnunni og Gróttu um 10%.

Sjá nánar á heimasíðu ASÍ.

Þess ber að geta að hér er aðeins um verðsamanburð að ræða og sú þjónusta eða dagskrá sem í boði er á námskeiðum íþróttafélaganna er ekki metin.  Verðlagseftirlitið tekur heldur ekki tillit til fjáröflunar sem íþróttafélögin standa fyrir og eða styrkja frá sveitarfélögum hvorki æfingagallar, né keppnisgjöld eru með í gjaldinu sem borið er saman. Einnig er ekki tekið tillit til vinnuframlags foreldra til lækkunar á æfingargjöldum.