Skip to main content

Lækkun stýrivaxta er mikilvægt skref í að styðja við bata efnahagslífsins og styrkja fjárhag heimilanna.

Í gær var tilkynnt að Peningastefnunefnd Seðlabankans hefði ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Niðurstaðan er í takt við væntingar en búist var við að Seðlabankinn myndi bregðast við neikvæðari horfum í efnahagsmálum. Markmið nýgerðra kjarasamninga var jafnframt að styðja við verðstöðugleika og forsendur til lækkunar því til staðar. Samhliða vaxtaákvörðun gaf Seðlabankinn út efnahagsspá sína en þar kemur fram að sviptingar í ferðaþjónustu og loðnubrestur hafi breytt horfum um hagvöxt.

Seðlabankinn spáir því nú að samdráttur verði á árinu 2019 og að verg landsframleiðsla dragist saman um 0,4% milli ára. Þó er útlit fyrir að efnahagssamdráttur verði skammvinnur og að hagvöxtur verði 2,4% á árinu 2020 og 2,6% á árinu 2021.

Spá Seðlabankans felur í sér að það hægi á umsvifum í hagkerfinu á þessu ári og þar með komi atvinnuleysi til með að aukast og verða 3,9% á þessu ári og 3,8% á því næsta. Hins vegar muni draga úr verðbólgu á spátímanum þó hún kunni að aukast fram á mitt ár 2019. Raungerist spáin mun verðbólga vera að jafnaði 3,2% á þessu ári og 2,7% á næsta ári.

Lækkun stýrivaxta er mikilvægt skref í að styðja við bata efnahagslífsins og styrkja fjárhag heimilanna. Lægri fjármagnskostnaður mun skapa forsendur fyrir lægra verðlagi hjá fyrirtækjum og þannig ýta undir verðstöðugleika en einnig lækka fjármagnskostnað heimilanna t.d. með hagkvæmari húsnæðislánum.

Lækkun vaxta er þannig líkleg til að styðja við aukin efnahagsumsvif á næstu árum en raungerist spá Seðlabankans er mögulegt að hagvöxtur á árunum 2020-2021 geti orðið til þess að hagvaxtarauki kjarasamninga komi til greiðslu. Í nýgerðum kjarasamningum mátti finna ákvæði um launaauka verði hagvöxtur á mann yfir 1%. Verði hagvöxtur á mann 1% kemur til 3000 kr. hækkun á mánaðarlaunatöxtum og 2250 kr. hækkun á önnur mánaðarlaun. Hagvaxtaraukinn er í þrepum og getur hækkunin mest orði 13.000 kr. á taxtalun ef hagvöxtur á mann fer yfir 3%.

Hagvaxtarauki kjarasamninga

Verg landsframl. á mann,                  Launaauki á                                 Launaauki á föst mánaðarlaun
hækkun milli ára                               
mánaðarlaunataxta                     fyrir dagvinnu

1,0 – 1,5,%                                        3.000 kr.                                         2.250 kr.
1,51 – 2,0%                                       5.500 kr.                                         4.125 kr.
2,01 – 2.5%                                       8.000 kr.                                         6.000 kr.
2,51 – 3,0%                                       10.500 kr.                                       7.875 kr.
> 3%                                                 13.000 kr.                                       9.750 kr.