Skip to main content

Stéttarfélög, atvinnurekendur og stjórnvöld þurfa að bregðast við #metoo umræðunni og grípa tafarlaust til aðgerða. Þetta er niðurstaða fjölmenns fundar #metoo kvenna sem bandalög stéttarfélaga og Kvenréttindafélag Íslands stóðu fyrir nýverið.

Stéttarfélög, atvinnurekendur og stjórnvöld þurfa að bregðast við #metoo umræðunni og grípa tafarlaust til aðgerða. Þetta er niðurstaða fjölmenns fundar #metoo kvenna sem bandalög stéttarfélaga og Kvenréttindafélag Íslands stóðu fyrir nýverið.

Í skýrslu sem unnin hefur verið upp úr ábendingum fundargesta, sem komu úr fjölmörgum #metoo hópum kvenna, kemur fram sú krafa að allir taki þátt í því að laga samfélagið.

Á fundinum, sem fór fram með þjóðfundarsniði, komu fram ábendingar sem bandalögunum og Kvenréttindafélaginu var falið að fylgja eftir. Það munu þau gera í sinni starfsemi og gagnvart stjórnvöldum og atvinnurekendum.

 Hér eru nokkrar af niðurstöðum fundarins:

  • Atvinnurekendur þurfa að axla ábyrgð, vera virkir í umræðunni og grípa til sýnilegra aðgerða á vinnustöðum með þátttöku allra starfsmanna. Efla þarf fræðslu og umræðu um heilbrigð samskipti, mörk og meðvirkni.
  • Stéttarfélög eiga að vera leiðandi í umræðunni, virkja trúnaðarmenn og heimsækja vinnustaði. Einnig eiga þau að styðja þolendur innan vinnustaða.
  • Stjórnvöld þurfa að breyta jafnréttislögum þannig að heimilt verði að sekta vinnustaði sem ekki sinna forvörnum og upprætingu kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni og annars ofbeldis á vinnustöðum.

Að fundinum stóðu Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands.

Lesa má nánar um niðurstöður fundarins og tillögurnar í heild í skýrslunni Samtal við #metoo konur – Hvað getum við gert?