Skip to main content

Alþýðusamband Íslands hélt í gærkvöldi opinn fund með stjórnum og trúnaðarráðum aðildarfélaga þess á Norðurlandi vestra. Fundurinn tókst með miklum ágætum og mæting var góð.

Alþýðusamband Íslands hélt í gærkvöldi opinn fund með stjórnum og trúnaðarráðum aðildarfélaga þess á Norðurlandi vestra. Fundurinn tókst með miklum ágætum og mæting var góð. Framsögu höfðu Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir formaður FVSA og Guðmundur Ragnarsson, formaður VM. Einnig tóku til máls Þórarinn Sverrisson, formaður Öldunnar og Ásgerður Pálsdóttir, formaður stéttarfélagsins Samstöðu.

Guðmundur ræddi m.a. um bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga og Vertu á verði sem er liður í átaki í verðlagseftirliti ASÍ.
 
Úlfhildur hafði framsögu um Nýja hugsun í atvinnu- og menntamálum sem er byggð á þeirri vinnu sem fram fór á sambandsþingi ASÍ í fyrrahaust. Gera þarf greiningu á mannaflaþörf á vinnumarkaði og samræma svo skólakerfið og þarfir vinnumarkaðar.

Þórarinn flutti erindi um stöðu atvinnumála í Skagafirði sem er almennt góð og uppgangur á sumum sviðum. Atvinnuleysi er lítið en þó hefur stöðugildum fækkað hjá opinberum aðilum og framboð á nýjum störfum er ekki mikið.

Ásgerður fjallaði um atvinnuástand í Húnaþingi vestra og eystra. Verið er að endurreisa rækjuvinnsluna Meleyri en þar er skortur á fólki til starfa. Uppgangur er í ferðaþjónustu í Húnavatnssýslu.

Að lokum tók Gylfi til máls og lýsti hann áherslum ASÍ í húsnæðis- og velferðarmálum. Taldi hann brýnast að koma hinum tekjulægri til aðstoðar við að afla sér húsnæðis. Gylfi útskýrði hina svokölluðu ,,dönsku leið“ sem ASÍ hefur lagt til að tekin verði upp hér á landi en hún tekur bæði til húsnæðislána almennt og félagslega kerfisins.

Miklar og málefnalegar umræður spunnust á fundinum og fundarmenn voru duglegir að nota tækifærið til að spyrja þeirra spurninga sem á þeim hvíldu varðandi þessi málefni.

Þökkum við Alþýðusambandi Íslands og fundargestum fyrir frábæran fund.