Skip to main content

Miðvikudaginn 16. september 2020, kl. 11.00, verður kynnt skýrsla kjaratölfræðinefndar, nýs samstarfsvettvangs um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag.

Miðvikudaginn 16. september 2020, kl. 11.00, verður kynnt skýrsla kjaratölfræðinefndar, nýs samstarfsvettvangs um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag. Í skýrslunni er fjallað um kjarasamningslotuna sem hófst árið 2019, umfang kjarasamningagerðar, og þróun efnahagsmála og launa.

Kynningin verður í formi fjarfundar og hlekkur á hann birtur hér þegar nær dregur. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra mun ávarpa fundinn og Edda Rós Karlsdóttir, formaður kjaratölfræðinefndar, kynna skýrsluna og gera grein fyrir helstu atriðum hennar. Fundarstjórn verður í höndum Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara.

Í nefndinni sitja fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Hagstofu Íslands. Tekist hefur góð samstaða um þann grunn upplýsinga og tölfræðigagna sem settur er fram í skýrslunni og er það von nefndarinnar að þessi grunnur nýtist hagaðilum vel. Skýrslan er sú fyrsta í röð skýrslna, en gert er ráð fyrir að nefndin gefi framvegis út tvær á ári og verða þær gerðar aðgengilegar á nýjum vef kjaratölfræðinefndar.