Skip to main content

Skorar á stjórn Tryggingarmiðstöðvarinnar að fara að fordæmi þeirra

,,Það er einföld sanngirniskrafa að viðskiptavinir tryggingafélaga, ekki síður en eigendur þeirra, njóti þess með lægri iðgjöldum þegar vel gengur í rekstri félaganna“ segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.

,,Ég fagna ákvörðun stjórnar Sjóvár og VÍS að draga til baka tillögu um að greiða arð úr bótasjóðum, þó ég hefði vissulega vilja sjá VÍS lækka arðgreiðslurnar enn meira‘‘ segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ. Gylfi leggur áherslu á að bótasjóðir tryggingafélaganna séu afar mikilvægir varasjóðir viðskiptamanna tryggingafélaganna, tryggingatakanna, og er ætlað að mæta óvissu við mat á endanlegu tjóni. ,,Bótasjóðirnir eru sérstaklega mikilvægir vegna persónuskaða og slysa á einstaklingum‘‘ segir Gylfi.

,,Það er ljóst að uppbygging þessara sjóða á sér stað með iðgjöldum viðskiptavinanna en ekki með framlagi eigendanna. Því hlýtur bætt fjárhagsleg staða sjóðanna að skila sér til viðskiptavinanna fremur en eigendanna. Í þessu felst ekki andstaða við að tryggingafélögin greiði hluthöfum sínum eðlilegan arð heldur andstaða við að hluthafarnir fari með bótasjóðina sem sína einkaeign. Ég fagna sinnaskiptum stjórna Sjóvár og VÍS og skora á stjórn Tryggingarmiðstöðvarinnar að fara að fordæmi hinna og afturkalla tillögu stjórnar um útgreiðslu milljarða arðs. Það er einföld sanngirniskrafa að viðskiptavinir tryggingafélaga, ekki síður en eigendur þeirra, njóti þess með lægri iðgjöldum þegar vel gengur í rekstri félaganna" segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.