Skip to main content

Föstudagspistill forseta ASÍ

Það er endalaus barátta að bæta hag vinnandi fólks og stundum að koma í veg fyrir lífshættulegar aðstæður. Það er algert lágmark að atvinnurekendur séu gerðir ábyrgir fyrir að stofna ekki lífi og heilsu fólks í hættu, að allt fólk sem starfar á íslenskum vinnumarkaði njóti virðingar og viðunandi aðbúnaðar og að glæpamenn í atvinnulífinu fái aldrei frið til að misnota fólk.

Í dag er sorgardagur, þrjár manneskjur létust í bruna á Bræðraborgarstíg þegar óíbúðarhæft húsnæði brann til grunna. Það hefur engum dulist sem þekkir þetta hús að það er varla mannabústaður og hafa borist um það fjölmargar ábendingar. Engu að síður eru 73 einstaklingar með skráð lögheimili í húsinu, mest fólk af erlendum uppruna. Að líkindum er þar á ferðinni erlent verkafólk sem hefur komið hingað til lands til að vinna og bæta sinn hag. Erlent verkafólk hefur átt stóran þátt í að skapa lífsgæðaaukninguna sem við höfum velflest notið góðs af, en íslenskt samfélag hefur ítrekað brugðist þessum hópi. Við höfum vitað það um langa hríð að erlent verkafólk býr oft við óviðunandi aðstæður. Í mörgum tilvikum er húsnæðið á vegum atvinnurekenda og því fer fjarri að allir atvinnurekendur standi undir slíkri ábyrgð. Glæpamenn hafa nýtt sér þessa stöðu, haft af fólki launin í gegnum óhóflega leigu eða annan frádrátt, komið fram við fólk eins og dýr í vinnu og látið fara eða sent aftur til síns heima ef það mótmælir eða slasast. Hættulegar aðstæður í vinnu og húsnæði hafa verið hlutskipti margra.

Það er endalaus barátta að bæta hag vinnandi fólks og stundum að koma í veg fyrir lífshættulegar aðstæður. Það er algert lágmark að atvinnurekendur séu gerðir ábyrgir fyrir að stofna ekki lífi og heilsu fólks í hættu, að allt fólk sem starfar á íslenskum vinnumarkaði njóti virðingar og viðunandi aðbúnaðar og að glæpamenn í atvinnulífinu fái aldrei frið til að misnota fólk. Í dag fer meira púður í að elta uppi verkafólk en að taka á glæpamönnum og óheiðarlegum atvinnurekendum sem nýta sér bága stöðu erlends verkafólks. Þetta þarf að breytast og það strax. ASÍ hefur ítrekað kallað eftir öflugra eftirliti og sterkari eftirlitsstofnunum.

Á Íslandi á ekki að þurfa bruna og mannfall til að takast á við óboðlegt íbúðarhúsnæði. Við verðum að tryggja að ekkert þessu líkt hendi aftur. Til að svo megi verða þarf rannsóknin á brunanum, aðdraganda hans og ástæðum þess að fjöldi fólks var með skráð lögheimili í óíbúðarhæfu húsi að vera fumlaus og ítarleg. Það þarf líka að rannsaka margt annað því Bræðraborgarstígur 1 er fjarri því að vera eina húsnæði af þessari gerð.

Góða helgi,
Drífa

Tengill á forsíðu ASÍ
Alþýðusamband Íslands er stærsta fjöldahreyfing launafólks á landinu. ASÍ er samband 47 stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði.